Hálfur sigur unninn segir Sigurður Bessason

22. 07, 2011

2011-07-22siggi2

Hálfur sigur unninn

– segir Sigurður Bessason

Það er hálfur sigur unninn með þessum kjarasamningum, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar í viðtali við Eflingarblaðið. Við erum ánægð yfir því að almennt eru níu af hverjum tíu félagsmönnum sammála okkur um samþykkt þessa samnings en um leið erum við alveg meðvituð um þá veikleika sem nú blasa við okkur. Nýju kjarasamningarnir veita okkur tækifæri og svigrúm til þess að auka kaupmáttinn og snúa atvinnulífinu í gang, en það verður líka að vera vilji og geta til þess hjá stjórnvöldum og atvinnurekendum að spila með en ekki á móti okkur þegar kemur að framkvæmd kjarasamninganna. Niðurstaðan fer alveg eftir því hvernig við höldum á spilunum hvort okkur tekst að ná þeim árangri sem að er stefnt, segir hann.

Þetta eru með erfiðari kjarasamningum sem við höfum tekist á hendur, segir Sigurður Bessason og það eru margar samhangandi ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi þá höfum við aldrei þurft að gera nánast alla kjarasamninga félagsins, bæði á almennum markaði og hinum opinbera nánast á sama tímapunktinum. Á síðustu vikum höfum við gengið frá öllum okkar samningum, bæði inni á almenna markaðnum og hinum opinbera og síðan fylgja fjölmargir samningar sem tengjast aðalsamningum okkar, bæði við fyrirtæki og stofnanir. Það er komin nokkur þreyta í okkur sem höfum unnið að þessu núna síðan í nóvember á síðasta ári en við kvörtum svo sem ekki þar sem þetta er verkefni sem verður að vinna og ljúka.

Það er ýmislegt sem verður að gerast á vinnumarkaðnum til að meginmarkmið kjarasamninganna takist, segir Sigurður. Það verður að snúa hjólum atvinnulífsins í gang. Það er ekkert því til fyrirstöðu að hefja nú framkvæmdir á mörgum sviðum sem bæði skapa fólki tekjur, auka kaupmátt og auka rennslið í tómar fjárhirslur ríkis og sveitarfélaga. Það er einnig eitt brýnasta verkefnið að höggva hratt og vel á atvinnuleysið sem er orðið allt of langvarandi og fjöldi langtímaatvinnulausra ætti að vera okkur vaxandi áhyggjuefni.

Verðlagsaðhald mikilvægt núna!
Þá er eitt brýnasta verkefnið núna að fylgjast vel með verðlagsmálum og sjá til þess að kaupmátturinn skili sér í vasa launafólks en brenni ekki upp í vítahring víxlverkana verðhækkana. Fjöldi fyrirtækja t.d. í útflutningi er vel í stakk búinn til að greiða laun samkvæmt kjarasamningunum og það þarf að koma í veg fyrir það að fyrirtæki noti nú tækifærið og hækki verð á vörum og þjónustu umfram tilefni. Þess vegna þurfum við nú að efla allt verðlagsstarf en opinberir og hálfopinberir aðilar bera líka ábyrgð á því að fara varlega í breytingar á þjónustugjöldum því við erum engu bættari með launahækkanir ef þær hverfa samstundis í hít verðhækkana, segir Sigurður.