Leggðu þitt af mörkum átak

peningar

Leggðu þitt af mörkum

ASÍ, SA og ríkisskattstjóri gegn skattsvikum

Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Ríkisskattstjóri hafa tekið höndum saman í baráttunni gegn skattsvikum. Átakið sem ber yfirskriftina, Leggur þú þitt af mörkum, er ætlað að hvetja atvinnurekendur og launafólk til að standa rétt að samningum sín í milli. Athyglinni verður beint sérstaklega að litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Átakið er hluti af nýgerðum kjarasamningum og er unnið í framhaldi af eftirliti með vinnustöðum á vegum stéttarfélaganna innan ASÍ þar sem vinnustaðaskírteini og eftirlit hafa skilað góðum árangri.

Áhersla verður á svarta atvinnustarfssemi, undanskot á launatengdum gjöldum og brot á kjarasamningum. Ljóst er að skattsvikin í viðkomandi fyrirtækjum eru skaðleg fyrir alla hlutaðeigandi og samfélagið í heild. Átakið mun standa fram á haust og mun 12-14 manna teymi undir forystu Ríkisskattstjóra fara á milli fyrirtækja og upplýsa og leiðbeina hvernig eigi að standa rétt að málum þegar kemur að ráðningum og skattaskilum.

Markmið verkefnisins er að stuðla að betri tekjuskráningu, tryggja að starfsmenn séu skráðir á launaskrá og að farið sé að lögum og reglum. Um leið er hvatt til þess að opinber gjöld skili sér á réttum tíma ásamt lögboðnum og samningsbundnum framlögum til lífeyrissjóða og gjöldum til stéttarfélaga.

Hér væri um framhald af átaki um vinnustaðaskírteini sem ASÍ og SA hafa staðið fyrir að undanförnu. Áherslan er að hér sé einn vinnumarkaður þar sem allir spila eftir sömu leikreglum. Þegar margir svindla á leikreglunum getur það sýkt heilu atvinnugreinarnar með þeim afleiðingum að samkeppnishæfnin skekkist. Þá standa þeir höllum fæti sem sýna samfélagslega ábyrgð og eru með sitt á hreinu. Þannig samfélag viljum við ekki.