Jákvæðnin smitaði út frá sér allan tímann

27. 09, 2011

Í síðasta fréttablaði Eflingar birtust nokkur viðtöl varðandi námskeiðið Yrkju, blaðið má nálgast hér og eins má sjá viðtal við eina af pólsku konunum  Elizabetu Markowsku sem tók þátt í YRKJU hér fyrir neðan.

elzbieta_12                                             Við gátum skilið hvor aðra

– segir Elzbieta Markowska

Elzbieta Markowska var ekki í neinum vafa um að skrá sig á námskeiðið Yrkju þegar hún fékk boðskortið frá Eflingu. Ég var strax ákveðin í að mæta því að ég hafði ekkert að gera og svo fannst mér líka flott hvernig þetta var orðað í bréfinu. Það var verið að bjóða mér en ekki að skipa mér að mæta en mér finnst mikilvægt að hafa þetta val, segir hún.

Elzbieta kom til Íslands í janúar 2007 og fékk vinnu í prentsmiðju. Hún hefur góða reynslu af prentstörfum/bókbandi í heimalandi sínu og kynntist meira að segja kærastanum sínum í gegnum þá iðju en hann kom með henni til landsins. Ég vann í tvö ár en þegar kreppan kom missti ég vinnuna því fyrirtækið sem ég vann hjá varð gjaldþrota, segir Elzbieta.

Að hafa eitthvað fyrir stafni
Hún segir það mikilvægt í atvinnuleysi að hafa eitthvað fyrir stafni á hverjum degi. Á námskeiðinu lærðum við og gerðum ýmislegt saman. Við lærðum íslensku og á tölvur, við fórum í ferð til Reykjanesbæjar og fórum Krísuvíkurleiðina. Við föndruðum póstkort og lærðum að búa til dagatal, segir hún en henni fannst mikilvægt að læra eitthvað sem hún gæti dundað sér við heima.  Aðspurð um hvað hafi verið skemmtilegast á námskeiðinu, svarar hún því til að það hafi bara allt verið skemmtilegt.

Elzbieta er ekki í neinum vafa um hvað hafi verið það besta við námskeiðið. Það er að fá að hitta fólk í sömu sporum og hún sjálf og hafa eitthvað fyrir stafni í atvinnuleysinu. Það var svo gott að fá að hitta pólskar konur sem voru líka atvinnulausar og í sömu aðstæðum og ég, við gátum skilið hvor aðra bæði vegna svipaðra aðstæðna og svo voru engir tungumálaerfiðleikar til staðar, það var ómetanlegt segir hún. Það skiptir líka svo miklu máli að hafa eitthvað fyrir stafni og ég fann að eftir námskeiðið var ég miklu orkumeiri og hressari en áður segir hún.

Hún hefur þegar ákveðið að taka íslenskuna föstum tökum og ætlar á íslenskunámskeið í haust. Það fer eftir því hvort ég fái vinnu í haust, sem ég vona, hvort að ég fari 5 sinnum í viku á morgnana eða tvisvar í viku á kvöldin en hvort sem er þá ætla ég segir hún ákveðin. Hún hefur verið atvinnulaus síðustu 2 ár en alltaf með hléum. Ég hef mest verið að vinna á hótelum eins og núna í sumar en ég fékk bara sumarstarf en ég er að vona að ég fái vinnu í haust segir hún.

Það sýnir líka hvað þetta var frábært námskeið hvað við vorum duglegar að mæta og engin okkar hætti, það var reyndar þannig að þegar námskeiðið var búið vildum við ekki hætta. Við spurðum hvort ekki væri hægt að búa til annað námskeið fyrir okkur, okkur langaði svo að halda áfram því þetta var svo skemmtilegt segir hún. Hún segir að lokum að allir sem fái tækifæri til að fara á svona námskeið eigi að mæta.