Mun fleiri fengið úrræði

23. 09, 2011

fjola_og_jona

Efling áfram með fólki í atvinnuleit

Mun fleiri fengið úrræði

-segja Fjóla Jónsdóttir og Jóna Sigríður Gestsdóttir

Tilfinning okkar er sú að atvinnuleitendur séu almennt jákvæðari nú en áður og það kom okkur í raun á óvart hvað margir eru ánægðir sem við tölum við enda hefur úrræðunum fjölgað svo um munar fyrir atvinnuleitendur, segir þær Fjóla Jónsdóttir og  og Jóna Sigríður Gestsdóttir, sem halda utan um starf atvinnuleitenda hjá Eflingu.    Vinnumálastofnun hefur markvisst samband við fólk í atvinnuleit til að bjóða þeim upp á úrræði og því sé tíminn sem fólk er látið afskiptalaust sífellt að styttast.  Fjóla og Jóna hafa nú í haust verið að setja sig í samband við félagsmenn Eflingar sem eru í atvinnuleit.

Undanfarin þrjú ár hefur Efling fundað með atvinnuleitendum og segja þær Fjóla og Jóna að á þeim fundum finni þær einnig fyrir breytingu. Það er aukin virkni hjá fólki sem gerir fólk jákvæðara. Það er alltaf ánægjulegt að heyra sögur af því hvernig úrræðin hafa jákvæð áhrif á líf fólks. Þó að úrræðum hafi fjölgað mikið virðist skorta úrræði fyrir atvinnuleitendur 55 ára og eldri, segja þær Fjóla og Jóna en þær myndu vilja sjá breytingu þar á. 

Efling mun í haust halda áfram að funda með atvinnuleitendum eftir stutt hlé í sumar. Farið verður yfir hvaða úrlausnir eru í boði hjá sjóðum félagsins og þau menntunarúrræði og annað sem Efling getur boðið upp á, námsráðgjöf og starfsendurhæfingu fyrir þá sem það þurfa. Auðvitað er ljóst að ekkert kemur í stað atvinnu en mikilvægt er að vera virkur í atvinnuleit og leita sér þekkingar og menntunar meðan á biðinni eftir atvinnu stendur.

Á fundunum hafa verið farið  yfir  hvað  er í boði  hjá félaginu og aðra þá þjónustu og úrræði í samfélaginu og má  nefna ýmsa styrki úr sjúkrasjóðnum eins og fræðslusjóðum félagsins  jafnframt  sem í boði er ýmiss námssúrræði, aðstoð við ferilsskrá, viðtöl við námsráðgjafa, starfsendurhæfingarráðgjafa og að sjálfsögðu eru þjónustufulltrúar félagsins alltaf til staðar.

Einnig hefur verið boðið upp á kynnisferð í Hlutverkasetrið og Rauðakrosshúsið og starfsemin þar kynnt. Atvinnuleitendur hafa verið mjög ánægðir með þetta framtak félagsins og hafa ýmis mál verið rædd á fundunum og mörg sjónarmið komið fram og oft skapast miklar umræður. Einnig hefur verið kannaður vilji til námskeiðahalds eða annarra úrræða sem félagið hefur möguleika á að bjóða upp á. Margir hafa í framhaldi farið og nýtt sér þau námsúrræði og námskeið sem í boði eru og pantað tíma hjá náms- og starfsráðgjafanum, sótt um styrki í fræðslusjóði og sjúkrasjóði.