Snúum okkur að atvinnuskapandi verkefnum

snuum_okkur_ad_atvinnuskapandi_verkefnum                                     Snúum okkur að atvinnuskapandi verkefnum

– segir Sigurður Bessason

Nú þegar líður að hausti og staða atvinnumála er skoðuð blasir við að sumarið er að líða hjá án nokkurs viðsnúnings í atvinnumálum. Því miður er staðan sú hér á Eflingarsvæðinu að það eru jafnmargir án vinnu í júlí á þessu ári og var í febrúar árið 2010. Á sama tíma og fækkað hefur atvinnuleysishópnum á almenna markaðnum hefur atvinnulausum fjölgað hjá ríki og sveitarfélögum um rúmlega þá fækkun og gott betur. Í dag er fjöldi atvinnulausra 2520 í félaginu sem er nánast sama talan og var í febrúar 2010 en stóri munurinn liggur í því hvenær tíma árs þessar tölur eru fengnar. Skýringin er annars vegar í samdrætti vetrarins og hins vegar á háannatíma sumars. Þetta segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar í viðtali við Eflingarblaðið. Við verðum að snúa okkur að atvinnuskapandi verkefnum, segir hann.

Uggvænleg þróun langtímaatvinnuleysis
Það er einnig uggvænlegt hvernig langtímaatvinnuleysi er að þróast á landinu. Mjög er að fjölga í hópi þeirra sem hafa verið lengi án atvinnu. Fyrir ári höfðu 21% þeirra sem voru án vinnu verið án vinnu í eitt ár eða lengur en nú er staðan sú að þessi tala er kominn upp í 58% eða 1464 einstaklingar sem hafa verið án vinnu í eitt ár eða lengur.  Það sér hver maður hvaða félagsleg áhrif þetta fer að hafa á samfélag okkar ef þessi þróun heldur áfram, segir Sigurður.

Það er á þessum tímamótum sem Seðlabanki Íslands sér ástæðu til að hækka stýrivexti til þess að slá á verðbólgu. Að halda í skefjum væntingum um aukinn hagvöxt. Hjá okkur sjáum við eingöngu enn einn veturinn sem erfitt verður að þreyja án lausna, enn eitt árið sem haldið er að sér höndum í framkvæmdum og það sem verra er að þeir sem hafa stýritækin beita þeim af fullum þunga til þess að viðhalda þessari stöðnun. Ef við náum engum viðsnúningi í hagvexti munum við standa frami fyrir áframhaldandi samdrætti í tekjum launamanna sem mun speglast yfir í skatttekjum ríkis og sveitafélaga. Sá samdráttur mun leiða til enn frekari samdráttar og uppsagna hjá ríki og sveitafélögum. Hér er vítahringur í gangi sem verður að stöðva, segir Sigurður.

En það eru fleiri vá fyrir dyrum. Nýgerðir kjarasamningar sem skapa áttu launafólki aukinn kaupmátt virðast standa á veikum fótum í ljósi þeirra auknu verðbólgu sem nú gengur yfir. Ljóst er að hluti þessara verðbólgu er heimatilbúinn  þar sem hver ætlar að bjarga sínu eigin skinni og ná umframsneið af kökunni með því að velta kostnaði út í verðlagið. Glöggt dæmi um þetta eru hækkanir sem bændur hafa boðað þar sem skýringin sem gefin er fyrir boðuðum hækkunum er að bændur hafi borið minna úr bítum á síðustu árum. Hvað getur þá almennt launafólk sagt?

Við höfum vitað það allan tímann að leiðin út úr þessum ógöngum væri að ná saman um atvinnuskapandi verkefni og ýta dægurþrasinu til hliðar á sama tíma en í leiðinni þá yrðu allir að á sama báti í gegnum skerjagarðinn og við sömu árar.  Því miður erum við ekki á þessari leið, sagði Sigurður Bessason að lokum.