Framtíðarverkefni

11. 10, 2011

skattur_01                     Framtíðarverkefni

– segir Oddur Friðriksson

Þetta er mjög verðugt verkefni og ég lít svo á að þetta starf eigi að vera til frambúðar, segir Oddur Friðriksson, sem hefur á síðustu vikum lagt verkefninu Leggðu þitt af mörkum lið. Það á auðvitað eftir að fínpússa þessa starfsemi þar sem þessir aðiliar eru að vinna saman að þessu máli í fyrsta sinn, en ég met það svo að samstarfið muni skila það miklum ávinningi að verkefnið sé komið til að vera, segir hann.

Aðspurður um í hverju verkefnið sé fólgið, segir Oddur að hópurinn fari á vettvang saman og heimsæki fyrirtæki um allt land. Þar fari fram ákveðið eftirlit og um leið sé safnað upplýsingum til úrvinnslu síðar á vegum skattyfirvalda. Við notum einnig tækifærið og skoðum hvort vinnustaðaskírteini eru notuð á vinnustaðnum þar sem það á við og sagðist Oddur í reynd undrandi á því hversu vel hefur tekist til um útbreiðslu skírteinanna. Þetta er allt á kurteisum nótum, í hópnum höfum við aðgang að staðgreiðsluskrá til staðfesta hvort fólk segir rétt til hvort það sé á launaskraá. Það er út af fyrir sig merkilegt að þessir aðilar skuli ekki hafa unnið saman fyrr að þessu verkefni þ.e. ASÍ, SA, ríkisskattstjóri og Vinnumálastofnun því að þeir eiga svo ríka sameiginlega hagsmuni í þessu, bætir Oddur við.

Á vinnustaðnum leggjum við fram leiðbeinandi tilmæli og síðan tekur skatturinn við ýmsum upplýsingum frá fyrirtækjunum. Við þessa athugun kunna að koma í ljós ýmis atriði sem betur mega fara, segir hann. Á þessu stigi er auðvitað ekki hægt að fullyrða neitt í einstökum atriðum um árangur en ljóst er þó að mikill ávinningur er af þessu starfi sem skilar sér m.a. í betri og meiri upplýsingum inni í fyrirtækjunum, segir Oddur.

Leggðu þitt af mörkum

Átakið gegn skattsvikum skilar árangri

Það kemur fram í viðtölum sem Eflingarblaðið hefur átt við forsvarsmenn átaksins gegn svartri atvinnustarfsemi að aðstandendur þess eru samdóma um að það hafi skilað góðum árangri. Það var á vordögum eftir undirritun kjarasamninganna sem ASÍ, SA og Ríkisskattstjóri tóku höndum saman í baráttunni gegn skattsvikum. Athyglinni var beint sérstaklega að litlum og meðalstórum fyrirtækjum og var ákveðið að verkefnið  stæði í sumar og fram á haustið en því er nú að ljúka um þessar mundir.  12-14 manna teymi á vegum þessara samstarfsaðila hefur síðan farið um allt land og heimsótt vinnustaði  m.a. til að upplýsa og leiðbeina um hvernig eigi að standa rétt að málum varðandi skattaskil, ýmsar greiðslur sem skila ber af launamönnum og leiðbeina í öðrum tengdum málum. Markmið er m.a. að koma í veg fyrir undanskot á launatengdum gjöldum og brot á kjarasamningaum.