Getum ekki sætt okkur við atvinnuleysið

27. 12, 2011

siggi_getum_ekki_saett_okkur_vid_atvinnuleysid                                       Getum ekki sætt okkur við atvinnuleysið

– segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar

Við getum ekki og eigum ekki að sætta okkur við þetta atvinnuleysi. Það tekur ekki bara frá okkur möguleikann til að lifa mannsæmandi lífi.  Það eyðileggur sjálfsmynd okkar og trú á framtíðina. Nú erum við að sjá fjórða ár í kreppu og á þriðja þúsund félagsmanna í Eflingu eru atvinnulausir og þar af eru langtímaatvinnulausir stækkandi hópur. Við sjáum ýmis merki þess að fjárhagur margra fjölskyldna sé í úlfakreppu, því mjög hafi þrengt að á síðustu misserum. Í nýrri viðhorfskönnun fjölgar þeim sem draga við sig í útgjöldum s.s. í ferðalögum, fatnaði og tómstundum. Alvarlegast er að fjöldi fólks dregur við sig í matarinnkaupum, lyfjakostnaði og heilbrigðisþjónustu. Þetta segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar í samtali við Fréttablað félagsins. Ég hef miklar áhyggjur af því að samfélag okkar sé að breytast og fólk fari að sætta sig við atvinnuleysið sem hluta af lífinu. Það má ekki gerast og nú verða stjórnvöld og fyrirtækin að snúa af þessari braut, segir hann.

Við sjáum í þessari nýjustu könnun okkar að óánægjan með launin fer vaxandi enda er það vel skiljanlegt í ljósi þess að margir töpuðu miklum kaupmætti í hruninu og okkur gengur illa að endurheimta það. En það er einmitt vaxandi óánægja með stöðugt hækkandi verðlag þar sem verðbólga spilar stóran þátt og tengist veikri stöðu íslensku krónunnar. Með gengislækkunum er öllum kostnaði velt yfir á almenning, segir hann.

Vonbrigði okkar eru mikil því við höfum trúað því að við værum að ná botninum og leiðin væri bara upp á við. Kannski eru það falsfréttirnar sem slá okkur út af laginu. Við viljum auðvitað sjá atvinnuleysistölur lækka, fjárhags og rekstrarafkoma sveitafélaga og ríkis  hjarna við og bankarnir hafa verið að sýna rekstrarafgang og á sama tíma hafa Íslendingar aldrei sótt fleiri jólatónleika og ferðalög landans eru að ná fyrri stigum. Nýjustu mælikvarðarnir sem dregnir eru upp um batnandi tíma eru fjölgun ferðalanga til Boston og að kortajólasalan muni aukast um 2,5%.

Er þetta veruleiki þeirra sem hafa lægri launin? Því miður ekki. Þetta fólk er örugglega ekki að fylla flugvélarnar til útlanda. 

Stefna ríkisstjórnarinnar er því miður ekki að fylgja þeirri stefnumörkun sem þeir hafa skrifað undir með okkur og atvinnurekendum. Í öðru orðinu vill stjórnin efla atvinnuna en gerir svo allt of lítið í raunverulegum verkefnum þegar þau liggja á borðinu. Þau tala um að ná launum og kaupmætti upp en viðhalda síðan með Seðlabankanum þessu lága gengi til þess að styðja við bakið á útflutningsgreinum. Þannig fást fleiri krónur fyrir útflutninginn en afleiðingarnar eru settar yfir á herðar almennings.

Þá er ekki síst áhyggjuefni það aukna vinnuálag sem starfsmenn eru að upplifa. Það er ekki síst afleiðing þess að á stöðum eins og hjúkrunarheimilum og leikskólum, að þar fara verkefnin ekki neitt ef fækkun verður í starfsmannahópnum. Þvert á móti þá er aukið álag sett yfir á þá sem eftir standa á vaktinni. Afleiðing þessa eru aukin veikindi í starfsmannahópnum sem eykur enn frekar á álag starfsmanna, segir hann.

Í nær öllum spám sem við erum að sjá þessa dagana koma fram upplýsingar sem eru ekki upplífgandi fyrir atvinnustigið. Þessar tölur eru að segja okkur það að hægar mun ganga á atvinnuleysið, það muni taka lengri tíma að ná því niður og það verði meira til langframa. Þess vegna ríður á að ríkis-stjórnin bretti nú upp ermarnar og skapi aðstæður fyrir atvinnulífið og verkefni af þeirri stærðargráðu sem komi vinnu í gang að nýju í þjóðfélaginu. Það er lífsnauðsyn, segir Sigurður.