Hvetjum fólk til að leita tilboða

14. 12, 2011

hvetjum_folk_til_ad_leita_tilboda                                                                                     Vilt þú lækka tryggingar heimilisins?

Hvetjum fólk til að leita tilboða

– segir Smári Ríkharðsson

Hver þekkir ekki umræðuna á vinnustaðnum þar sem vinnufélaginn hefur hringt í tryggingafélagið sitt og státar af því að hafa lækkað heimilis- og bílatryggingarnar um tugi þúsunda. Það fer minna fyrir umræðunni um að á hverju ári hækka tryggingafélögin iðgjöld sín og taka þannig oft hljóðlega burtu ávinninginn sem viðskiptamaðurinn hafði af lækkun síðasta iðgjaldaárs. Félögin gæta þess að hafa iðgjöldin hæfilega ógagnsæ og hækka grunntaxta sína og lækka afslætti oft án þess að viðskiptamenn verði þess varir. Þetta segir Smári Ríkharðsson, sérfræðingur í tryggingum, en hann mun á næstunni aðstoða félagsmenn Eflingar-stéttarfélags við að ná hagkvæmari iðgjöldum með fræðslu og ráðgjöf á vegum félagsins.

Það er mikilvægt að koma ákveðinni þekkingu um tryggingamarkaðinn til almennings og þetta munum við gera bæði með viðtali eins og þessu og síðan námskeiðum hjá Eflingu sem við bjóðum upp á í vetur, segir Smári. Mikilvægast er að fólk leiti tilboða og búi yfir góðri þekkingu, segir hann.

Iðgjöld vátrygginga hafa hækkað umtalsvert undanfarin ár þrátt fyrir að tjónum hafi fækkað og að það eru fjögur virk vátryggingafélög í samkeppni á markaðnum, segir Smári. Félögin hafa hvert í sínu horni hækkað grunntaxta eða markvisst minnkað afslætti. Þau hafa samt yfirleitt brugðist ágætlega við ef vátryggingartaki hefur samband og óskar leiðréttingar. Samkeppni er af hinu góða og eðlilegt að fyrirtækin reyni að ná sínum markmiðum en við neytendur þurfum líka að spá í það hvernig við sem kaupendur getum virkjað þessa samkeppni okkur í hag, segir hann.

Iðgjöld vátrygginga hjá hverjum viðskiptavini um sig hafa þá einkennilegu áráttu að vera hæfilega ógegnsæ og hækka ár frá ári. Þetta gerist að því er virðist hljóðlega og oft án þess að viðskiptamenn verði þess varir. Það gildir einu hjá hvaða vátryggingafélagi viðskiptin liggja þetta gerist hjá þeim öllum, segir hann.

Þetta er umhugsunarvert, segir Smári. Hvað verður um þá mörgu sem taka ekki upp símann eða gera sér ekki ferð í fyrirtækið til að kalla eftir þessum auka krónum? Það virðist tíðkast í þessum viðskiptum að þeir sem láta hvað mest í sér heyra eru að fá hagkvæmustu tilboðin. Þess vegna er mikilvægt að hvetja fólk til að leita eftir tilboðum í tryggingar sínar og fylgjast vel með „eðlilegu“ verði á tryggingunum.

Ekki liggja fyrir neinar kannanir í þessum efnum en Smári segir ljóst að fjöldi tilboða hjá tryggingafyrirtækjunum sýni þetta svart á hvítu. Það er samt ekki alltaf þannig að einstakt tryggingafélag sé að selja á ódýrustu skilmálum. Það getur verið að önnur félög séu að bjóða betur. Það er líka á stundum þannig að félögin gefa viðskiptavinum betri kjör ef þeir færa viðskiptin til sín. Þannig er það þekkt að svokallaður „fyrsta árs“ afsláttur er gefin þeim sem hefja viðskiptin á þeim bæ.