Ánægja með atvinnumessu

atvinnumessa_1                                          Ánægja með atvinnumessu

Fimmtudaginn 8. mars tók Efling stéttarfélag þátt í atvinnumessu á vegum Vinnumálastofnunar. Messan er hluti af átakinu Vinnandi vegur en markmið þess er að skapa 1.500 ný störf fyrir atvinnuleitendur fyrir lok maí 2012. Á messunni voru kynnt ný tækifæri í störfum og starfsþjálfun. Ráðgjafar og ráðningarþjónusta voru til taks, fræðsluaðilar kynntu sína starfsemi og leiðbeindu fólki um námsleiðir.

Efling kynnti á messunni það sem atvinnuleitendum stendur til boða hjá félaginu ásamt því að leiðbeina fólki um ýmis málefni er snertir atvinnuleitendur. Túlkur var Eflingu til aðstoðar og margir pólskumælandi nýttu sér þá þjónustu. Starfsfólk Eflingar var mjög ánægt með hversu áhugasamir atvinnuleitendur voru í að afla sér upplýsinga. Þess má geta að rúmlega 3000 styrkir voru veittir úr fræðslusjóðum Eflingar á árinu 2011 og þar af töluverður hluti til atvinnuleitenda.

Miklar vonir eru bundnar við að árangur af atvinnumessunni skili sér til sem flestra atvinnuleitenda.