Hvað skilar mestum árangri atvinnuleitenda?

atvinnuleitendur                                                                             Könnun Eflingar sýnir athyglisverðar niðurstöður

Hvað skilar mestum árangri atvinnuleitenda?

Tungumálið er lykill að árangri

Allt frá efnahagshruninu hefur hlutfall atvinnuleitenda hjá Eflingu-stéttarfélagi verið hátt og nú eru um 13,4% félagsmanna í atvinnuleit á meðan skráð atvinnuleysi fyrir landið allt er 7,2%.  Þar af er tæplega helmingur atvinnuleitenda af erlendum uppruna og eru Pólverjar þar langfjölmennastir. Þá hefur þeim fjölgað hratt í Eflingu sem hafa verið án atvinnu lengur en í eitt ár og er sá hópur nú um 64% atvinnuleitenda.  Könnun Eflingar leiddi í ljós að af þeim sem fengið hafa vinnu hafa flestir fengið störf í gegnum vini eða fjölskyldu, eða um 40%, og næst flestir í gegnum almenna auglýsingu eða 23%.  En það var margt fleira áhugavert sem að könnunin leiddi í ljós. Einungis 13% Pólverja geta haldið uppi samræðum á íslensku en um helmingur þeirra getur haldið uppi samræðum á ensku á meðan um 83% Íslendinga  í Eflingu geta haldið uppi samræðum á ensku.

Hvað skipti mestu máli til að fá vinnu?
Við framkvæmd könnunarinnar taldi Efling mikilvægt að fá upplýsingar hjá þeim hópi sem hafði verið atvinnuleitendur um tíma en voru nú komnir í vinnu.  Úrtakið miðaðist því annars vegar við þá sem eru atvinnuleitendur nú og hins vegar við þá sem höfðu verið án atvinnu fyrir ári síðan en voru nú komnir með vinnu. Hvað skilaði mestum árangri við atvinnuleit?

Hátt hlutfall pólskra atvinnuleitenda verið sérstakt áhyggjuefni en af þeim tæplega 2700 pólsku félagsmönnum í Eflingu eru um fjórðungur þeirra án atvinnu.  Könnunin miðaðist því við íslenska og pólska atvinnuleitendur og var hægt að svara henni bæði á íslensku og pólsku.

Hvernig fékkstu vinnu?
Yfir helmingur karla fékk vinnu í gegnum vini eða fjölskyldu á meðan þriðjungur kvenna svaraði því til.  Hins vegar fengu mun fleiri konur vinnu í gegnum almenna auglýsingu eða 28% á meðan einungis 15% karla fékk vinnu á þann hátt.  Þá sagðist um 6% hafa fengið vinnu í gegnum Vinnumálastofnun af þeim hópi sem er í vinnu nú.

Athyglisverður munur á aðferð við atvinnuleit
Það kom hins vegar á óvart að talsverður munur var með hvaða hætti Íslendingar og Pólverjar höfðu fengið vinnu.  Þannig höfðu langflestir Pólverjar fengið vinnu í gegnum vini eða fjölskyldu eða um 64% á meðan 29% Íslendinga nýttu sér þau sambönd en tæplega þriðjungur Íslendinga hafði fengið vinnu í gegnum almenna auglýsingu en einungis 8,5% Pólverja fengu vinnu eftir þeim leiðum.

Um 29% Íslendinga telja líklegt að þeir fái vinnu á næstu þremur mánuðum en mun lægra hlutfall Pólverja, eða 15,8%.

Hátt hlutfall Pólverja talar ekki íslensku
 Könnunin leiddi í ljós að einungis einn af hverjum átta Pólverjum eða um 13% kvaðst geta haldið uppi almennum samræðum á íslensku og um helmingur þeirra á ensku.  En hlutfall Íslendinga sem sagðist geta haldið uppi samræðum á ensku var um 83%.

Þá telur tæplega 28% tungumálaörðugleika ástæðu þess að þau séu ekki með vinnu í dag og meira en þrír af hverjum fjórum telja að auðveldara væri að fá vinnu ef íslenskukunnátta væri meiri.

Hátt hlutfall þeirra sem höfðu fengið vinnu eru nú í annarri starfsgrein
Um 39% þeirra sem fengu vinnu sinna nú störfum sem eru í annarri starfsgrein en þeir sinntu áður en að þeir misstu vinnuna.  Þetta hlutfall er enn hærra hjá Íslendingum eða 44% og þá var einnig athyglisvert að sjá að Íslendingar höfðu sótt um mun fleiri störf en Pólverjar.

Þá voru 60% þeirra sem höfðu fengið aðra vinnu í kjölfar atvinnumissis ánægðari með það starf sem þau höfðu núna en starfið sem að þau höfðu áður.

Fáir sem nýta sér sérfræðiaðstoð
Þrír af hverjum fimm eða um 60% hafa aldrei leitað til einhvers konar ráðgjafa, náms- eða starfsráðgjafa á síðastliðnum tveimur árum.  Þegar svör Pólverja eru skoðuð er enn færri sem hafa leitað til ráðgjafa en þar segjast 75% aldrei hafa leitað til ráðgjafa.

Einnig var spurt hvort að viðkomandi hefði leitað til félagsráðgjafa eða annars sérfræðings frá því að hann hefði misst vinnuna.  Þar höfðu enn færri nýtt sér slíka aðstoð en 74% Íslendinga sögðust aldrei hafa nýtt sér það og 81% Pólverja.

Léleg svör við atvinnuumsóknum
Ljóst er að samkvæmt könnuninni þurfa fyrirtæki að bæta sig talsvert þegar kemur að svörum við atvinnuumsóknum. Næstum helmingur atvinnuleitenda svarar því til að hann fái aldrei eða næstum aldrei svör frá atvinnurekendum vegna starfs sem sótt var um.

Könnun Eflingar meðal atvinnuleitenda
Könnun Eflingar, sem  fyrirtækið Maskína gerði, fór fram í desember og janúar sl.  Könnunin fór fram bæði í síma og á netinu meðal íslenskra og pólskra atvinnuleitenda hjá Eflingu sem telja tæplega 80% af hópnum.  Markmiðið var meðal annars að komast að því hvers vegna sumum atvinnuleitendum gengur betur að fá vinnu en öðrum. Könnunin leiddi í ljós margt athyglisvert og varpaði meðal annars ljósi á mikilvægi tungumálsins og tengslanets atvinnuleitenda