Látum ekki rugla okkur í ríminu

23. 03, 2012

siggib                                                                                                                                      Lífeyrismál

Látum ekki rugla okkur í ríminu

segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar

Fyrir árið 1971 átti almennt launfólk allt undir stjórnvöldum þegar launaðri vinnu lauk og réttindi almannatrygginga tóku við. Þá bjuggu opinberir starfsmenn og fáeinar aðrar stéttir við þau forréttindi að geta treyst á eigin lífeyri en vera ekki að öllu leyti háðar afkomu ríkisins á hverjum tíma. Almenn réttindi launafólks byggðu á gegnumstreymis-kerfi þar sem samtímaskattar stóðu undir réttindum sem voru síðan ákvörðuð á Alþingi. Reynslan sýnir að þegar kreppir að þá dragast skatttekjur saman og síðan kemur réttindaskerðing í kjölfarið. Það er hollt að skoða hvernig slík kerfi virka í öðrum löndum og nærtækasta dæmið núna er í Svíþjóð þar sem forsætisráðherrann hefur nýverið viðrað tillögur um hækkun töku lífeyrisaldurs frá 65 ára aldri upp í 75 ára aldur vegna skorts á skatttekjum. Þetta hefði getað gerst á Íslandi með galtóman ríkissjóð ef við byggjum við gegnumstreymiskerfi lífeyris í stað þess að búa við uppsöfnunarkerfi þar sem hver kynslóð leggur til hliðar til elliáranna. Látum þess vegna ekki rugla okkur í ríminu og styðjum við lífeyriskerfið okkar, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar í samtali við blaðið í tilefni af nýrri skýrslu um lífeyrismálin.

Áratuginn 1970-1980 var hér bullandi verðbólga sem át jafnharðan upp eigur sjóðanna. Það var bein afleiðing af hárri verðbólgu sem var aftur afleiðing af arfaslakri hagstjórn þar sem krónan var látin leika lykilhlutverk í gengisfellingu með jöfnu millibili. Frá 1979 höfum við búið við verðtryggingu og síðan 1989 sem er farið að greiða lífeyrisiðgjald af öllum tekjum bæði dagvinnu og yfirvinnu. Allar götur síðan þá hefur þetta kerfi verið í stöðugri uppbyggingu og lengst af þessum tíma hafa sjóðirnir verið að skila ávöxtun yfir viðmiðunarmörkum sem eru 3,5%. Tvisvar hefur hagkerfið farið nánast á hliðina á þessu tímabili. Fyrst á áttunda áratugnum  og nú síðast 2008. Umræðan í dag gengur út á að lífeyrissjóðirnir hafi þurft að skerða réttindi stórlega. Þegar tímabilið frá árinu 2005 er skoðað þá kemur í ljós að það er enginn fótur fyrir þessu þar sem aukning lífeyris og skerðingar hafa verið álíka mikil yfir þetta tímabil. Þess utan er lífeyririnn verðtryggður sem hefur leitt til þess að hann hefur hækkað meira en launavísitalan eftir hrunið 2008.

Það er íhugunarefni að þegar allar fjármálastofnanir og stærsti hluti fyrirtækja landsins fara á hliðina að þá sé sú krafa gerð til lífeyrisskerfisins að það sleppi algjörlega óskaddað frá borði. Að stjórn-endur lífeyrissjóða hefðu átt að búa yfir annarskonar upplýsingum en aðrir í samfélaginu. Vissulega töpuðust miklir fjármunir en þegar horft er til ávöxtunar annarra eigna eins og jafnan er gert við uppgjör sjóða þá minnkar tjónið verulega.
 
Við eigum að draga lærdóm af þessu hruni og fara vel yfir allar ábendingar sem fram koma í skýrslu rannsóknarnefndar um starfshætti lífeyrissjóðanna. Við eigum að standa vörð um lífeyriskerfið sem við höfum byggt upp saman til langs tíma og er ætlað að standa lengi. Alþingismenn sem hafa kosið að búa við ríkulegri réttindi en almenningur í landinu eiga ekki að vera dómarar í okkar málum. Alþingi sem ákveður að laga og leiðrétta það misrétti sem hefur viðgengist í áratugi í lífeyrismálum  er velkomið að þeirri umræðu að ræða um framtíðaruppbyggingu sambærilegs lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Við eigum að standa saman um það kerfi sem hefur verið í þróun í fjóra áratugi. Við erum sjálf bestu vörslumenn okkar réttinda. Það gera ekki aðrir.