leiðari 2. tbl. 2012

12. 03, 2012

siggibessa_01                                                                                     Leiðari 2.tbl. 2012

Staða skuldara og réttindi í lífeyrissjóðum 

Nýlegur hæstaréttardómur um gengistryggð lán hefur enn á ný beint sviðsljósinu að lántakendum og skuldavanda heimilanna. Ljóst er að þrátt fyrir dóma Hæstaréttar, ráðstafanir stjórnvalda og afskriftir bankanna  hvíla miklar húsnæðisskuldir ennþá á fjölmörgum heimilum landsmanna.

Mikilvægt er að gera sér vel grein fyrir því að skuldavandi heimilanna snertir langt frá því öll heimili í landinu. Vandinn  er margskonar  en verstu dæmin tengjast fyrst og fremst eignabólunni sem varð eftir 2004 og af þeim sem keyptu fasteignir á þeim tíma er líklega stærsti hópurinn ungt fólk sem lent hefur í erfiðleikum  af völdum stökkbreyttra lána. Þá mætti ætla að vandinn sé að mestu bundinn við höfuðborgarsvæðið þar sem fasteignahækkun átti sér ekki stað í sama mæli á landsbyggðinni. Nýlegar niðurstöður um skuldastöðu heimilanna gefa til kynna að þetta eigi við allt suður og suðvesturlandið að höfuðborgarsvæðinu meðtöldu.  Þá er nokkuð ljóst, sem reyndar hefur komið fram í viðhorfskönnunum Flóafélaganna, að lágtekjufólk tók ekki í sama mæli á sig há lán sem síðan stökkbreyttust í kreppunni. Þannig kemur fram að innan við helmingur félagsmanna í Eflingu býr í dag í eigin húsnæði, ungt fólk er margt flutt í foreldrahús en vissulega eru dæmi um félagsmenn sem neyðst hafa til að selja íbúðir sínar og eru  komnir í leiguhúsnæði.

Mikilvægt er að hafa það í huga að það voru stjórnmálamenn sem einkavæddu bankana og stjórn-málamenn sem lögðu grunninn að fasteignabólunni með hækkun lánsviðmiða í lánakerfum Íbúðalánasjóðs. Þar dugðu engar viðvaranir sem finna má í Rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem ráðherra félagsmála á þeim tíma 2003-2004 var ítrekað varaður við að gera þessar breytingar.

Við skulum vera þess minnug að það voru pólitískar patentlausnir sem lagðar voru fram varðandi húsnæðismálakerfið sem komu okkur í þennan vanda og sköpuðu eignabóluna  sem við sitjum uppi með afleiðingarnar af. Þrátt fyrir það verðum við að skoða allar raunhæfar tillögur  til lausna skuldavanda heimilanna.
Sú hugmynd að ætla leysa skuldamál hluta heimila landsmanna með því að að ganga á lífeyrisréttindi landsmanna í almennu lífeyrissjóðunum hlýtur að kalla á hörð viðbrögð sjóðfélaga lífeyrissjóðanna. Það er hvorki sanngjarnt né skynsamlegt að þeir sem bera minna úr býtum í lífeyriskjörum sínum taki þátt í almennri skuldaniðurfærslu, jafnvel til þeirra sem bæði njóta betri kjara og meiri lífeyrisréttinda.
Að gera kröfu á þá sem aldrei hafa eignast húsnæði  að gefa eftir hluta lífeyrisréttinda  til þess að mæta vanda annarra þýðir bara tilfærslu á vanda en enga lausn.   Frestun á töku lífeyris er heldur engin lausn þar sem fjöldi fólks er ekki í þeirri stöðu að ráða tímasetningu töku lífeyris.

Ef stjórnmálamenn hyggjast grípa til almennra skuldalækkana er launafólk engu bættara með því að skaða eða eyðileggja lífeyrisréttindi fólks sem flest ber enga ábyrgð á hruninu.

Sigurður Bessason,formaður Eflingar – stéttarfélags