Umkringd dásamlegu fólki

25. 04, 2012

umkringd_dasamlegu_folki                                                                                          Jóna María Eiríksdóttir

Umkringd dásamlegu fólki

Jóna María Eiríksdóttir hefur haft nóg fyrir stafni eftir að hún hætti að vinna en hún lauk starfsævinni á Ási dvalarheimili í Hvergerði eftir 23 yndisleg ár í starfi  fyrir átta árum. Í viðtali við blaðið segir hún frá vinnustaðnum sem er henni enn svo kær, fyrstu skrifstofu verkalýðs- og sjómannafélagsins Boðans sem var á heimili hennar og lífinu eftir starfslok.

Ég er fædd og uppalin í Helgastöðum í Biskupstungum en flyt til Hveragerðis árið 1967. Jónu Maríu finnst gott að búa í Hveragerði en hefur mikla ánægju af því að heimsækja heimahagana. Mér finnst alveg yndislegt að koma þarna aftur. Hann Jón Sigurbjörnsson leikari býr nú í húsinu sem ég ólst upp í og fáum við systurnar að kíkja í heimsókn til hans. Það var gaman að sjá hann leika í gamla daga, hann er þannig persóna að maður man eftir honum, segir hún. 

Yndislegt að vinna á Ási
Eftir að Jóna María fluttist með foreldrum sínum til Hveragerðis fór hún að vinna í stutta stund í Kaupfélaginu á staðnum og svo á saumastofunni Magna. Áður en ég flutti vann ég yfirleitt í Reykjavík á sumrin og á veturna hjálpaði ég til á bænum, segir hún. Dvalarstaðurinn Ás varð henni svo kær vinnustaður því hún vann þar í 23 ár eða alveg þangað til að hún hætti að vinna fyrir átta árum. Það var yndislegt að vinna á Ási. Ég var umkringd dásamlegu fólki, bæði var starfsfólkið svo gott og yfirmennirnir líka og ekki má gleyma heimilisfólkinu, segir hún. Hún vann alla tíð í eldhúsinu en greip í önnur verk ef vantaði. Ég á bara yndislegar endurminningar af þessum vinnustað. Þetta var góður hópur fólks sem vann þarna og ég eignaðist mikið af góðum vinum.

Aðspurð um félagslífið á þessum tíma segir hún að það hafi verið gott. Heimilisfólkið fór alltaf í eina ferð á sumrin og gerir, held ég, enn og svo gerðum við starfsmennirnir ýmislegt saman. Við fórum út að borða og héldum t.d. þorrablót. Einu sinni var tekið sig til og farið á Skagaströnd. Við fórum allar saman og það var yndislegt. Það er ekki  hægt annað en að sakna starfsfólksins eftir að maður hefur unnið á svona góðum stað segir hún.

Skrifstofan fyrst heima á Þelamörk 3
Jóna María giftist manninum sínum, Þorsteini Bjarnasyni, árið 1971. Hann vann um tíma í Kaupfélaginu en fór svo að byggja en hann hefur byggt upp mörg hús í Hveragerði.  Við bjuggum alla tíð saman í einbýlishúsi sem hann byggði í Þelamörk 3 en eftir að hann dó skipti ég um hús við ung hjón hér í sömu götu segir Jóna María.

Þorsteinn, maðurinn hennar Jónu, tók alltaf virkan þátt í verkalýðsmálum og var hann kosinn gjaldkeri verkalýðs- og sjómannafélagsins Boðans og síðar var hann skrifstofustjóri félagsins. Í fyrstu sinnti hann byggingarvinnunni fyrri part dags og verkalýðsmálum seinni hluta en svo sneri hann sér alveg að verkalýðsmálum  enda áttu þau hug hans allan. Hann vann starfið sitt af samviskusemi og miklum heilindum og vildi hafa allt  rétt.  Þó ég segi sjálf frá var hann vel liðinn og fólk leitaði mikið til hans, segir Jóna María. Fyrsta skrifstofa Boðans var í húsinu þeirra í Þelamörk 3 í litlu herbergi sem hann notaði sem skrifstofu. Það var alltaf gestkvæmt og margir í kaffisopa þannig að það gat verið erilsamt, segir hún. Þorsteinn sinnti verkalýðsmálum þar til skömmu áður en hann lést úr krabbameini árið 1997.

Nóg að gera eftir starfslok
Jónu Maríu hefur ekki leiðst eftir að hún hætti að vinna og hefur hún nóg fyrir stafni. Hún á margt gott vinafólk og er dugleg við að fara í heimsóknir og fá til sín gesti. Við sitjum hér oft langtímum saman að prjóna, tala um mataruppskriftir eða bara spjalla um daginn og veginn. Svo les ég gríðarlega mikið og hef sérstakt dálæti á gömlum sveitasögum, segir hún. Hún er í kór, spilar bæði brids og vist og fer í göngur. Hún hefur einnig gaman af því að ferðast. Ég hef farið með eldri borgurum í ýmsar ferðir eins og sumarferð á sumrin og svo hef ég ferðast mikið til útlanda, segir hún. Jóna María segist vera mjög lánsöm því hún sé með góða heilsu og því geti hún gert það sem hana langi til. Ég held að það sé sérstakt að vera komin á þennan aldur og finna aldrei nokkurn tímann til, segir hún að lokum.