Dagbók Elku

25. 06, 2012

dagbok_elku

Dagbók Elku

Ný bók um Elku Björnsdóttur verkakonu í Reykjavík

-á fyrri hluta 20. aldar

Á dögunum kom út bókin Dagbók Elku. Alþýðumenning í þéttbýli á árunum 1915–1923 í frásögn Elku Björnsdóttur verkakonu sem sagnfræðingarnir Hilma Gunnarsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon höfðu veg og vanda af. Háskólaútgáfan gefur verkið út og það er fimmtánda bókin í ritröðinni „Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar“. Í ritröðinn hafa birst verk sem tengjast mikið sögu alþýðunnar í landinu frá 16. öld og fram til okkar daga.

Höfuðpersóna nýju bókarinnar, Elka Björnsdóttir, var fædd að Reykjum í Lundarreykjadal 7. september 1881. Tveggja ára að aldri fluttist hún með foreldrum sínum, Birni Ólafssyni frá Hækingsdal í Kjós og Jakobínu Þorsteinsdóttur frá Reykjum, að Skálabrekku í Þingvallasveit. Árið 1906 fluttist Elka til Reykjavíkur þar sem hún bjó til æviloka. Elka byrjaði að skrifa dagbók 1915 og hélt því áfram með litlum hléum fram á sumar 1923. Hún lést tæpu ári síðar 43 ára að aldri.

Höfðingjadjörf og jafnréttissinnuð sveitakona
Elka Björnsdóttir starfaði alla sína tíð sem verkakona í Reykjavík. Hún var trúuð, þátttakandi í verkalýðsmálum, áhugasöm um menntir, menningu og framfarir en um leið íhaldssöm og fastheldin á hefðir. Hún var höfðingjadjörf og jafnréttissinnuð sveitakona sem fylgdist grant með því sem var að gerast í þjóðmálunum og tileinkaði sér margt af því sem nútíminn hafði upp á að bjóða. Bókin veitir einstaka innsýn inn í lífsbaráttu, kjör og aðbúnað fátæks fólks í Reykjavík um það leyti sem Ísland var að verða fullvalda ríki. Vinnuharka, húsnæðisekla, vöruskömmtun, dýrtíð, alvarleg veikindi og óhagstætt tíðarfar settu svip á hina daglegu lífsbaráttu en einnig má greina í texta Elku sterka samhjálp, kröftuga stéttarbarátta og sókn í menntun og menningu.

Elka skrifaði um marga merkisatburði í íslenskri þjóðarsögu í dagbækur sínar, til dæmis um spænsku veikina, fullveldistökuna, Kötlugosið, brunann í miðbænum og Drengsmálið. Einnig segir Elka frá kuldanum og fylgifiskum hans frostaveturinn mikla 1918 auk að fjalla ítarlega um hversdaglegt amstur fátæks fólks á tímabilinu. Mögnuð dagbókarskrif hennar frá árunum 1915–1923 eru birt í heild sinni í þessari bók.
Í textanum sem hér birtist og er að finna í Dagbók Elku fá lesendur bæði að kynnast ofannefndu hversdagsamstri hennar og glímunni um kjörin sem fulltrúar Verkakvennafélagsins Framsóknar stóðu í. Persónurnar sem þarna koma við sögu eru Thor Jensen (Th.J), Th. Thorsteinsson (Th.Th.) og Jes Zimsen (J.Z), Jónína er Jónína Jónatansdóttir, Björn Bl. er Blöndal og starfaði sem erindreki Alþýðusambandsins. Elka var þegar þarna er komið sögu árið 1917 ritari stjórnar Framsóknar og tók virkan þátt í baráttunni fyrir betri kjörum. En sjón er sögu ríkari:

Sjá má kafla úr bókinni hér