Nokkur heildræði í veikindum

20. 08, 2012

umonnun3

Nokkur heilræði í veikindum

Mikilvægt að leita sér aðstoðar sem fyrst

Þegar einstaklingar verða veikir er mjög mikilvægt að bregðast fljótt við. Hér erum við ekki að ræða um skammtímaveikindi svo sem kvef eða flensu, heldur veikindi sem hafa áhrif á líðan okkar heima og í vinnunni og skerða starfsgetu okkar. Þá er tímabært að staldra við og skoða sinn hug. Þegar við stöndum frammi fyrir þeim vanda að við getum ekki sinnt fullu starfi vegna heilsubrests er ekki skynsamlegt að bíða með málið og sjá hvað verður.

Við þessar aðstæður sem lýst er hér að ofan, langvarandi vanlíðan eða veikindi, afleiðingar slysa sem há okkur í athöfnum daglegs lífs eða hamla okkur í starfi, þá hvetjum við fólk til þess að leita sér aðstoðar sem allra fyrst hjá starfsendurhæfingarráðgjöfum stéttarfélaganna. Ráðgjafar sem staðsettir eru í stéttarfélögum eins og Eflingu gegna því hlutverki að koma inn í mál við þessar aðstæður. Ráðgjafar skoða mál hvers og eins og meta hvort unnt er að koma viðkomandi til aðstoðar.

Þeir sem sækja um sjúkradagpeninga geta fengið upplýsingar um þjónustuna hjá fulltrúa sjúkrasjóðs en geta einnig haft samband við ráðgjafa VIRK hjá Eflingu og fengið upplýsingar. Því lengur sem við erum frá vinnu aukast líkurnar á því að við getum ekki snúið aftur til vinnu. Hver mánuður skiptir máli. Sá sem leitar þjónustu eftir að hafa verið frá vinnu í eitt ár vegna veikinda á mun lengri og erfiðari þrekgöngu framundan en sá sem leitar sér hjálpar strax. Markmiðið er að grípa inn í eins fljótt og hægt er til að koma í veg fyrir afleiðingar langvinnra veikinda s.s. depurð og kvíða. Þannig er hægt að mynda góðan grunn til að vinna með fólki að endurkomu til vinnu. Þjónustan er ókeypis og er opin þeim sem eru með skerta starfsgetu vegna heilsubrests en stefna ótrauðir á vinnumarkað.

Hvíldin getur vissulega verið góð, en aðgerðarleysi í lengri tíma er ekki gott. Samband við vinnufélaga minnkar, fólk á til að einangra sig og upplifir stundum skömm eða samviskubit yfir því að geta ekki gert eins mikið og aðrir svo eitthvað sé nefnt.