Margir stíga fyrstu skrefin hjá okkur

13. 10, 2012

sigurros                                                                                          Hvað viltu læra? – Í boði Eflingar

Margir stíga fyrstu skrefin hjá okkur

– segir Sigurrós Krisinsdóttir

Það eru mörg spennandi tækifæri til náms hjá Eflingu, bæði hjá félaginu sjálfu og námi sem við skipuleggjum með samstarfsaðilum. Starf okkar í menntamálum er eitt af því sem sem einkennir starfsemi Eflingar og þúsundir félagsmanna verða varir við, segir Sigurrós Kristinsdóttir, varaformaður Eflingar. Við erum mjög stolt af því að Efling varðar oft fyrstu skrefin inn í að efla fólk í starfi með námskeiðum og fræðslustarfi en margir halda síðan áfram í frekara námi. Við erum stöðugt að endurnýja okkur og nú er komið að námi fyrir heyrnarlausa einstaklinga en það verkefni hefur fengið nafnið Döff-menntaskólinn. Spurningin hjá Eflingu er ekki hvort þú vilt styrkja þig, heldur hvað þú vilt læra, segir Sigurrós.

Mörg spennandi tækifæri til náms í fræðslumálum hjá Eflingu. Við erum með spennandi verkefni fyrir félagsliða og leikskólaliða hjá okkur og af föstum liðum öðrum vil ég nefna Grunnmenntaskólann sem er mjög mikilvægt nám fyrir þá sem vilja byggja sig upp í starfi eða fyrir frekara nám. Við ætlum að fara af stað með nám fyrir heyrnarlausa einstaklinga sem hefur fengið nafnið Döff-menntaskóli og er samvinnuverkefni Eflingar, Mímis, Félags heyrnarlausra og samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Í raun er þetta Grunnmenntaskóli sem er aðlagaður að þörfum heyrnalausra.

Yrkju námið okkar fyrir félagsmenn af erlendum uppruna vakti mikla athygli og hlaut Evrópumerkið árið 2010. Fyrsti hópurinn voru pólskar konur en þarna er um að ræða 200 stunda almennt nám þar sem áhersla er lögð á íslenskukennslu, sjálfstyrkingu og samfélagsfræðslu auk þess sem farið er í vettvangsferðir. Markmiðið með náminu er að efla tengslanet og styrkja stöðu kvenna í atvinnuleit, að auka almenna þekkingu þeirra og að virkja þær. Stefnt er að því að fara af stað með hliðstætt nám fyrir erlenda karla og hefur það fengið vinnuheitið Orka.

Grunnstoðir er afar spennandi námsleið sem er samsett af nokkrum námskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og opnar hún mörg tækifæri fyrir þá sem hyggja á frekara nám í skólakerfinu. Ætlunin er að bjóða Grunnstoðirnar fyrir Eflingarfélaga á þessu ári.

Smiðjur er nýtt námstækifæri fyrir þá sem vilja vinna að verklegum viðfangsefnum frekar en að setjast yfir skólabækurnar. Efling stefnir að því að bjóða félagsmönnum upp á að minnsta kosti tvær smiðjur á árinu. Hugmyndin að þessu verkefni er að virkja þá einstaklinga sem hafa verið atvinnuleitendur í langa tíma.

Áframhald hefur verið á kynningarfundum okkar fyrir atvinnuleitendur eins og verið hefur síðastliðin ár. Þetta hafa verið léttir spjallfundir þar sem við hittum félagsmenn okkar, kynnum þeim réttindi þeirra hjá Eflingu ásamt því að heyra hvernig málin ganga hjá þeim og hvar félagið getur komið til aðstoðar. Við teljum að þessir fundir hafi skilað miklum árangri.

Karlakraftur er eins og nafnið segir til um fyrir karla. Fyrsta námskeiðið var nú í haust fyrir karlmenn sem eru eldri en fimmtugir. Mikil ánægja var með námið. Áhersla er lögð á árangursrík samskipti, íslensku, ensku, tölvur, heilsurækt, færnimöppu og náms- og starfsráðgjöf. Hverjum og einum er mætt á einstaklingsgrunni.

Trúnaðarmannanámið er fastur liður hjá Eflingu og verður áfram boðið upp á hefðbundin námskeið til þess að efla og upplýsa trúnaðarmenn á vinnumarkaði.

Mímir símenntun er helsti samstarfsaðili okkar í menntamálunum og hefur samstarfið verið mjög árangursríkt alla tíð og hafa Efling og Mímir vaxið samhliða í menntamálunum fyrir okkar félagsmenn síðustu árin. Flest þau námstilboð sem ég hef minnst á eru unnin í nánu samstarfi við Mími og er það Eflingu mjög mikilvægt að hafa svo gott samstarf við öflugan fræðsluaðila sem þekkir okkar hóp og hefur metnað til að sinna honum vel.

Með hliðsjón af þessu er ekki spurning hvort þú vilt styrkja þig með námi, heldur hvaða nám þú velur hjá Eflingu eða okkar samstarfsaðilum, segir Sigurrós Kristinsdóttir að lokum.