Samningstímabilið stytt og launahækkanir 1. feb tryggðar

22. 01, 2013

januar2013c 

Samningstímabilið stytt og launahækkanir 1. febrúar tryggðar

Samninganefnd Alþýðusambands Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa undirritað samkomulag um að stytta samningstímabil núverandi kjarasamninga um tvo mánuði þannig að þeir renna út 30. nóvember á þessu ári. Með þessu móti koma umsamdar launahækkanir til framkvæmda 1. febrúar næstkomandi en vinnu við næstu kjarasamninga verður flýtt. Þetta er í samræmi við niðurstöðu samninganefndar Flóabandalagsins þann 16. janúar síðast liðinn.

Í samkomulaginu felst einnig að vel verður fylgst með verðlagi þannig að fyrirtækjum og opinberum aðilum verði veitt aðhald til að koma í veg fyrir að launahækkunum verði ekki velt út í verðlagið.  Þá er gert ráð fyrir átaki í fræðslumálum með auknu framlagi atvinnurekenda í mennta- og fræðslusjóði.
 
Samkomulagið má nálgast hér.

Þá má geta þess að samningar við ríki/hjúkrunarheimili svo og Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög eru einnig með samskonar endurskoðunarákvæði og í kjarasamningi á almennum vinnumarkaði.  Niðurstöðu um framlengingu í þeim samningi er að vænta fljótlega.  Launahækkanir hjá þessum aðilum eiga að taka gildi 1. mars næstkomandi ef samningar  verða framlengdir.