Sjálfstyrking með húmor

18. 01, 2013

eddabjorvinsog_atvinnuleitendur

Sjálfstyrking með húmor

Góð byrjun á nýju ári

Mikil ánægja var með námskeiðið sjálfstyrking með húmor sem Edda Björgvinsdóttir kenndi 16. janúar félagsmönnum Eflingar í atvinnuleit. Húmor í lífinu er á allan hátt uppbyggilegur og nærandi og er stórkostlegt samskiptatæki. Deilum við hér nokkrum af gleðiæfingum Eddu ásamt hugleiðingum til þess að fegra líf sitt. Njótið vel.

Gremjukast
Rifjið upp einu sinni á dag hvenær þið funduð gremjupúkann menga líf ykkar, finnið það sem var hlægilegt við aðstæðurnar og deilið því með öðrum.

Gleðibankinn
Takið eftir því sem ykkur finnst fyndið í umhverfi ykkar, skráið það hjá ykkur. Skráið hjá ykkur fyndnar frásagnir og æfið ykkur í að endurtaka þær
Búið til gagnabanka með öllu því sem kætir ykkur, skoðið innistæðuna reglulega – og bætið sífellt við inneignina í “Gleðibankanum”.

Hlæja – syngja – dansa!
Gleðihormóninn endorfín eykst um mörghundruð prósent í líkamanum hverja mínútu sem maður hlær, hreyfir líkamann kröftuglega eða notar mikinn raddstyrk (syngur). Aukið endorfínflæðið eins mikið og þið mögulega getið á hverjum degi.