Liðstyrkur

runolfur

Liðsstyrkur, þjóðarátak gegn langtímaatvinnuleysi

Enginn falli af bótum án tilboðs um starf eða starfsendurhæfingu

– segir Runólfur Ágústsson, verkefnastjóri

Fyrir nokkrum dögum skrifuðu forsvarsmenn stéttarfélaga í landinu undir samkomulag við ríki, sveitarfélög og atvinnurekendur um úrræði fyrir þann gríðastóra hóp fólks sem missti vinnuna eftir hrun og er nú að tæma sinn bótarétt hjá Atvinnuleysistryggingasjóði. Heildarkostnaður sjóðsins við verkefnið eru 2,7 milljarðar króna og segir Runólfur Ágústsson sem stýrir verkefninu að markmið þess sé að virkja atvinnuleitendur, sem hafa fullnýtt eða munu að óbreyttu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins, til þátttöku að nýju á vinnumarkaði. Það er gríðarlega mikilvægt að þetta verkefni takist vel, segir hann.

Atvinnuleitendum, sem hafa fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabilinu frá 1. september 2012 fram til 31. desember 2013, samtals 3.700 atvinnuleitendum, verður þannig öllum boðin vinna eða starfsendurhæfing á árinu 2013. Þannig á að tryggja að enginn falli af atvinnuleysisbótum án þess að fá slíkt tilboð, segir Runólfur.

Megininntak verkefnisins er eftirfarandi varðandi þennan hóp atvinnuleitenda:
•       Vinna fyrir alla þá sem eru vinnufærir og vilja vinnu
•       Atvinnutengd endurhæfing fyrir þá sem eru óvinnufærir
•       Sérstakur tímabundinn framfærslustyrkur, svokallaður biðstyrkur er veittur, náist ekki að bjóða starfstengd vinnumarkaðsúrræði áður en einstaklingur fullnýtir bótarétt sinn.
•       Lögboðin þjónusta VMST eða Starfs við alla atvinnuleitendur tryggð óháð bótarétti

Áætlað er að 60% taki tilboði um vinnu og þurfa því samtals 2.200 sex mánaða störf að vera í boði á árinu 2013. Samkvæmt samkomulaginu mun sveitarfélög að lágmarki skapa 660 störf (30%) á tímabilinu, ríkið 220 störf (10%) og almenni vinnumarkaðurinn 1.320  störf (60%). Þessi störf eru vissulega tímabundin en rannsóknir sýna að í mörgum tilfellum verða þau varanleg. Þessa sex mánuði fá atvinnurekendur sem ráða langtímaatvinnulausa til nýrra starfa styrk til að niðurgreiða stofnkostnað við þau störf sem nemur grunnbótum ásamt 8% framlagi í lífeyrissjóð.
Hvað starfsendurhæfingu varðar, þá bendir fyrri reynsla til að gera megi ráð fyrir að allt að 25% hópsins sé ekki vinnufær eða samtals 900 einstaklingar sem þurfi þar af leiðandi á atvinnutengdri endurhæfingu að halda, svo sem hjá VIRK, starfsendurhæfingarsjóði. Slík þjónusta verður tryggð og sömuleiðis framfærsla grundvölluð á bótarétti viðkomandi á meðan á starfsendurhæfingu stendur.

Tryggður verður biðstyrkur náist ekki að bjóða starfstengd vinnumarkaðsúrræði áður en atvinnuleitendur hafa samtals verið 42 mánuði innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Atvinnuleitandi sem hefur verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins samtals skemur en 42 mánuði 1. janúar 2013 getur þá fengið framfærslustyrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem nemur þeim rétti sem hann/hún átti áður innan kerfisins. Styrkurinn er háður því að viðkomandi hafi ekki hafnað því virkni- eða atvinnuúrræði sem stóð til boða. Heimilt er að greiða styrkinn í allt að sex mánuði en aldrei lengur en að því tímamarki að viðkomandi er boðið starfstengt vinnumarkaðsúrræði.

Þá tryggir verkefnið einnig lögboðna þjónustu við þann fjölda atvinnuleitenda sem ekki á bótarétt hjá Atvinnuleysistryggingasjóð en nýtur fjárhagsstuðnings sveitarfélaga. Áætlaður fjöldi atvinnuleitenda sem njóta framfærslu sveitarfélaga er 1.500. Þessi hópur mun nú geta leitað til Vinnumálastofnunar eða Starfs og fengið þar greiningarviðtöl og ráðgjöf eins og aðrir þeir sem eru í atvinnuleit og fá þjónustu hjá stofnuninni. Miðað er við að hefja þessa þjónustu sem fyrst á árinu 2013 en þó eigi síðar en í september.

Áfram verður lögð áhersla á virkt samstarf um þjónustu við ungt fólk á aldrinum 16–25 ára sem nýtur fjárhagsaðstoðar hjá félagsþjónustu sveitarfélaga og að í því sambandi verði skoðuð aðkoma fleiri sveitarfélaga að Atvinnutorgunum. Mikilvægt er að koma þeirri þjónustu á sem fyrst á árinu 2013.

Enn fremur verði komið á styrku samstarfi Vinnumálastofnunar, félagsþjónustu sveitarfélaga og VIRK, starfsendurhæfingarsjóðs, um ráðgjöf og þjónustu við þá sem þurfa á atvinnutengdri starfsendurhæfingu að halda.

Að lokum verður vinnumiðlun og ráðgjöf hjá  Vinnumálastofnun og STARFI stórefld svo unnt verði að framkvæmda þetta metnaðarfulla og viðamikla verkefni. Nauðsynlegt er að fjölga ráðgjöfum og vinnumiðlunum hjá þessum aðilum en reynsla fyrri verkefna sýnir að of mikið álag er á ráðgjöfum. Því verða framlög til vinnumiðlunar og ráðgjafar  aukin verulega á árinu 2013.

Runólfur segir að með þessu metnaðarfulla átaki sameinast hagsmunaaðilar á vinnumarkaði með einstökum hætti til að bregðast við afleiðingum hrunsins. Hér er öllum tryggt tækifæri til innkomu á vinnumarkaðinn að nýju. Slíkt er óþekkt í okkar nágrannalöndum og ljóst er að gríðarmikil vinna er framundan til að þetta metnaðarfulla markmið náist. Þar þurfum við öll að vinna saman, segir hann að lokum.