Leiðari Eflingarblaðsins mars 2013

Leiðari Eflingarblaðsins

Efling krefst endurskoðunar stofnanasamnings við LSH

Það liggur nú fyrir að ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið í nýjum stofnanasamningi að hækka laun hjúkrunarfræðinga sérstaklega til að mæta kröfum um launajafnrétti kynjanna og auknu álagi á spítalanum. Efling-stéttarfélag hefur sent LSH erindi þar sem tekið er undir það sjónarmið velferðarráðherra að laga sérstaklega launakjör kvennastéttanna inni á LSH og hlýtur þessi stefnumörkun einnig að ná til félagsmanna Eflingar sem vinna undir meira álagi en áður og hafa orðið fyrir mikilli kjaraskerðingu á síðustu árum ekki síst vegna útboða LSH á störfum á kjarasviði Eflingar.

Ekki síst þess vegna lýsir Efling-stéttarfélag þungum áhyggjum af því þegar spítalinn hyggst leysa kostnað vegna launahækkana með hagræðingum innan sjúkrahússins. Í ljósi þessara viðhorfa velferðarráðherra og yfirstjórnar LSH hefur Efling-stéttarfélag farið fram á endurskoðun stofnanasamnings félagsins við spítalann.

Neytendur styðji við Verðlagseftirlit ASÍ Nokkrar stórar verslunarkeðjur hafa tilkynnt að þær hyggist ekki heimila verðlagsfulltrúum Alþýðusambandsins að fylgjast með verðlagi í verslunum með verðupptöku á vörum í hillum verslananna. Ástæðan sem þessir aðilar gefa upp er sú að vinnubrögð ASÍ í verðkönnunum sé óvönduð og meðal annars sé ekki verið að bera saman sömu vörur og sömu gæði. Um er að ræða stórmarkaðinu Hagkaup, Víði, Kost og Nóatún.

Mikilvægt er að hafa í huga forsögu þessa máls. Stóru verslunarkeðjurnar í landinu hafa aldrei stutt af heilindum verðlagseftirlit ASÍ eða ASÍ og Neytendasamtakanna áður fyrr og þar áður Neytendasamtakanna og nokkurra stórra verkalýðsfélaga á Reykjavíkursvæðinu. Í reynd kæra þessir aðilar sig ekki um virkt verðlagsaðhald.

Reynslan síðasta áratuginn segir okkur að stórar verslunarkeðjur gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir virkt verðlagsaðhald. Ýmist er reynt að veikja verðlagseftirlitið með því að halda því fram að kannanir séu ekki nógu vandaðar, leitað að villum í útreikningum kannanna eða því haldið fram að ekki sé verið að mæla sömu hluti með sambærilegum aðferðum.

Allur þessi málflutningur gengur gegn heilbrigðri dómgreind. Það eina sem vakir fyrir stéttarfélögum er að leitast við að sýna neytendum sem jafnframt eru í mörgum tilvikum félagsmenn í stéttarfélögum innan ASÍ lægsta verðið á markaði á þeim tíma sem kannanirnar eru teknar. Annað vakir ekki fyrir verðlagseftirlitinu. Alþýðusambandið hefur enga hagsmuni af því að gera upp á milli stórverslana eða koma höggi á einstakar verslanir. Það er fásinna að halda því fram. ASÍ hefur jafnframt lýst því yfir eins og jafnan í þessum deilum á fyrri árum að sambandið vilji eiga gott samstarf við verslanir um verðkannanir og allar athugasemdir þeirra sem marktækar eru og horfa til bóta verði teknar til skoðunar.

Mikilvægt er því að neytendur taki þeirri áskorun ASÍ um að versla ekki við þær keðjur sem neita að taka þátt í verðlagseftirliti ASÍ. Það verður mikilvægt á næstu mánuðum að fylgjast vel með verðlagi á ýmiss konar vörum og þjónustu. Allt aðhald í því efni er af hinu góða. Þess vegna þurfa neytendur að vera vel á verði og hætta að versla við þá sem vilja standa utan við eðlilegar leikreglur samkeppninnar á frjálsum markaði.

Sigurður Bessason
formaður Eflingar-stéttarfélags