Ályktun stjórnar og trúnaðarráðs 18. apríl

23. 04, 2013

Stjórnar og trúnaðarráðs Eflingar skorar á ríkisstjórnina

Leiðréttið laun allra umönnunarhópa

Stjórn og trúnaðarráð Eflingar samþykkti einróma á fundi sínum 18. apríl sl að skora á ríkisstórnina að leiðrétta laun allra umönnunarhópa í samræmi við þá stefnu sem stjórnin hefur kynnt í kjölfar sérstakra leiðréttinga til hjúkrunarfræðinga. Ályktunin er meðfylgjandi.

Ríkisstjórn Íslands tilkynnti þann 22. janúar sl. að ráðist yrði í aðgerðir til að draga úr kynbundnum launamun hjá stofnunum innan heilbrigðiskerfisins.  Stjórnvöld lýstu því jafnframt yfir að útfæra þyrfti þessar ráðstafanir annað hvort með tímabundnum aðgerðum fram að nýjum samningum eða á grundvelli stofnanasamninga.
Í fréttum undanfarið hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar lagt áherslu á að þessar aðgerðir séu hafnar. Þær hafi hafist með leiðréttingum til hjúkrunarfræðinga. Efling stéttarfélag minnir ráðherra ríkisstjórnarinnar á að það er ekkert nema aðgerðaleysi viðkomandi ráðherra sem kemur í veg fyrir framkvæmdina. Félagið óskaði eftir fundi með velferðarráðherra í lok febrúar. Sá fundur hefur ekki ennþá verið haldinn.

Efling-stéttarfélag hefur lagt áherslu á að stór hópur  innan félagsins gegnir umönnunarstörfum og flestar röksemdir stjórnvalda fyrir leiðréttingum launa heilbrigðisstétta eiga jafnt við um umönnunarhópa og aðrar kvennastéttir innan Eflingar.

Því skorar Efling-stéttarfélag á stjórnvöld að útfæra sem fyrst þessar  leiðréttingar því að öðrum kosti færast þær inn í kjarasamningsumhverfi sem hætta er á að viðhaldi því misrétti sem viðurkennt er að er fyrir hendi.