Syngjandi frístundabóndi

bjarni_atlason

Bjarni Atlason, trúnaðarmaður hjá Sorpu

Syngjandi frístundabóndi

Bjarni Atlason vinnur á endurvinnslustöðvum Sorpu og er nýorðinn trúnaðarmaður. Hann var í tölvunarfræði í Fjölbrautaskóla Ármúla en gat ekki hugsað sér að vinna við skrifborð og segist verða að gera eitthvað með höndunum. Heima fyrir dundar hann sér við búskap ásamt fjölskyldu sinni og er með hesta, hænur, kindur og endur. Hann byrjaði snemma að hafa áhuga á tónlist og æfa á hljóðfæri og syngja. Það sem byrjaði sem áhugamál og skemmtun hefur nú undið upp á sig og í dag syngur hann út um allar trissur með föður sínum og bróður. Saman mynda þeir Tindatríó og eru að fara að gefa út geisladisk ásamt Sveini Arnari Sæmundssyni, organista og söngvara. Efling fékk að kíkja í heimsókn hjá þessum áhugaverða unga manni og forvitnast um búskapinn og sönginn. 

Bjarni býr í fallegu amerísku bjálkahúsi á Tindum á Kjalarnesi og við hlið hans búa mamma hans og pabbi og bróðir hans og fjölskylda. Við pöntuðum húsið frá Bandaríkjunum og þurftum að setja það saman. Við kláruðum að byggja eftir hrunið 2008 og þóttum vera frekar klikkuð að byggja þá. Við vorum ekki að byggja mörg hundruð fermetra höll þannig að þetta slapp alveg til, segir hann. Hann ólst upp í Eyjafirði til 16 ára aldurs, en hefur búið á Kjalarnesi síðustu 14 árin.

Hross, sauðfé, hænur og endur
Við erum með hross, sauðfé, hænur og endur, segir Bjarni. Fjölskyldan byrjaði að stunda frístundabúskap fyrir norðan og byrjaði svo aftur smátt og smátt að halda dýr á Kjalarnesi. Hrossin nota þau aðallega til útreiða og í smölun og svo eru þau með 12 ær, einn hrút og einn sauð, sem búið er að gelda, en Bjarni bætti því sposkur við að sauðinn mætti nota í hangikjöt. Þegar blaðamaður var í heimsókn, voru allar kindur búnar að bera nema ein og hafði allt gengið vel.

Það er alltaf nóg að gera og ofboðslega gaman að geta ræktað allt sjálfur. Lömbin fá ekki öll að lifa og þegar þau eru orðin svona mörg, er hægt að hafa lambakjöt einu sinni í viku, segir hann. Það er samt ekki hlaupið að því að hefja búskap og ýmislegt sem þarf að huga að eins og kostnaður vegna dýralæknis og fóðurs. Allur kostnaður hefur aukist og í dag borgar sig t.d. ekki að heyja, nema maður sé með þeim mun fleiri dýr. Það er ódýrara að kaupa hey. Hænurnar koma út á sléttu, því það má segja að þær séu sjálfbærar. Eggin duga fyrir fóðrinu.  

Bjarna finnst æðislegt að búa í sveitinni og segist ekki vilja búa í borginni, hann hafi prófað það einu sinni. Ég vil vera frekar frjáls og það fæ ég fyrir utan borgina, þó að það sé fínt að skjótast þangað, en enn betra að koma aftur heim. 

Söngurinn skemmtilegastur
Bjarni byrjaði snemma að hafa áhuga á tónlist og byrjaði að æfa á blokkflautu fimm ára gamall. Mér fannst það ekkert skemmtilegt og skipti yfir í kornett og þaðan í söng. Ég gat valið úr, þar sem pabbi var skólastjóri tónlistarskóla. Þegar Bjarni fór í mútur skipti hann yfir í gítar, en fór síðar aftur í sönginn, þar sem honum fannst hann áhugaverðastur. Hann lauk framhaldsprófi í söng undir handleiðslu Hafsteins Þórólfssonar í Listaskóla Mosfellsbæjar, en hafði áður verið í söngnámi hjá Bergþóri Pálssyni í Söngskólanum í Reykjavík. Ég ætlaði um tíma til Heidelberg í Þýskalandi í tónlistarháskóla, en svo breyttust plönin. Það er miklu skemmtilegra að vera í barnauppeldi en búa í ferðatösku, segir hann.

En er hann ekkert feiminn að syngja? Ég er búinn að vera í þessu síðan ég var lítill og ég fer bara í annan karakter. Ég fæ fiðring í magann af og til, en það háir mér ekki. 

Tindatríó byrjaði sem skemmtiatriði
Við byrjuðum fyrir tíu árum að syngja saman í fimmtugsafmæli pabba, segir Bjarni aðspurður hvernig Tindatríó hafi komið til. Þetta átti að vera skemmtiatriði og fólk hafði mjög gaman af þessu en svo vatt þetta upp á sig. Í dag syngja þeir út um allt, með mörgum tónlistarmönnum og eru að fara að gefa út sinn fyrsta geisladisk ásamt Sveini Arnari Sæmundssyni.

Tindatríó vinnur mikið með Sveini Arnari, sem er organisti á Akranesi og syngur líka. Við tökum ýmist einsöng, dúetta, tríó eða kvartett og þar að auki er Sveinn á orgeli eða píanói og pabbi á trompet. Það er auðvelt að vinna í svona litlum hóp, því þá lærum við hver á annan, segir Bjarni. Geisladiskurinn kemur út í sumar, eða með haustinu og hefur að geyma safn laga sem þeir hafa sungið síðustu tíu árin. Það má finna ýmislegt á honum eins og barbershop, íslensk sönglög og meira að segja eitt lag úr Rocky horror.

Karlakórar og falsettur
Ég syng í brúðkaupum, jarðarförum og á ýmsum tónleikum, segir Bjarni en Tindatríó hefur unnið mikið með Grundartangakórnum, sem er kór Starfsmannafélags Járnblendifélagsins/Elkem og karlakórnum Spretti, sem er hestamannakórinn á Kjóavöllum. Þegar hann er spurður að því hvernig er að vera í kringum þessa karla alla, segir hann það ekkert mál. Ég er búinn að vera í karlakór síðan ég var sextán ára gamall og finnst það frábært. Flestir vinir mínir eru í kringum sextugt og mér finnst gaman að skemmta mér með körlum sem gætu hæglega verið feður mínir. Ég er gamall í mér og forn í hugsun.

Það er þó ekki þannig að Bjarni syngi einungis með karlmönnum, því hann hefur oft komið fram með blönduðum kórum og sungið með söngkonum eins og Guðrúnu Árnýju Karlsdóttur og Elínu Ósk Óskarsdóttur óperusöngkonu. Þó að engin kona sé í hópnum, þá leysum við feðgar það einfaldlega með því að bregða okkur í falsettu, t.d. í Kattadúettinum, sem er skrifaður fyrir tvær konur.

Samhent fjölskylda
Er ekkert erfitt að vera alltaf í svona miklu návígi við fjölskylduna? Það er ekkert vandamál þegar sátt og samlyndi ríkir og þetta venst. Þetta er hentugt þegar við þurfum að gera eitthvað saman eins og að æfa. Hann segir að þá velji þeir feðgar sér bara húsið sem þeir vilji æfa í og ef það er ekki laust, æfa þeir bara út í hesthúsi. Við getum verið þar alveg í friði og dýrin hafa aldrei kvartað. Hann segir þá bræður vera góða vini, en það sé stundum bræðrarígur á milli þeirra, enda ekkert gaman að þessu annars. Í þau fáu skipti sem ég er einn, er ég sofandi, segir hann, enda nóg að gera og gott að nýta hverja mínútu sem gefst til hvíldar. 

Og hvernig gengur að sameina allt? Þetta getur verið púsl og ég verð að viðurkenna að ég er ekki alltaf vinsælasti maðurinn í vinnunni, þegar ég þarf að fá frí til að syngja einhvers staðar. Ég fæ þó oftast nær skilning, en þetta fer að verða spurning um að finna sér aðra vinnu og taka sönginn upp á nýtt stig, segir Bjarni að lokum.