Við munum ekki axla ábyrgðina ein fyrir samfélagið.

11. 09, 2013

sigurdur_bessason_heimasida

Leiðari 5.tbl. Eflingar 2013.

Við munum ekki axla ábyrgðina ein fyrir samfélagið.

segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar-stéttarfélags

Nú við upphaf kjarasamningsviðræðna blasir við mjög þröng staða. Ný ríkisstjórnin lýsti því yfir að fjárlagahallinn væri meiri en fyrri ríkisstjórn hafði greint frá. Í framhaldinu voru viðbrögð ríkisstjórnarinnar að fella niður veiðigjöld á útgerðina, dregnar voru til baka fyrirhugar hækkanir á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu og tilkynnt var um að auðlegarskattar yrði felldur niður. Fjárlagagatið sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir eftir þessar aðgerðir hefur því augljóslega stækkað verulega og gæti legið á bilinu 25 til 30 milljarðar. Bráðabirgðaákvæðið um tímabundna hækkun vaxtabóta s.l. 3 ára sem hefur hjálpað skuldugum heimilum hefur verið fellt úr gildi og engar nýjar tillögur lagðar fram. Á sama tíma hefur ríkistjórnin sett á laggirnar hagræðingarnefnd sem á að koma með nýjar sparnaðartillögur. Ríkisstjórnin óskaði eftir frestun á haustþingi til þess að hún gæti lokið við væntanlegt fjárlagafrumvarp sem lagt verður fram 1. október n.k.  Ríkisstjórnin hefur ekki boðað aðgerðir vegna  skuldastöðu heimilanna til að standa við loforð um lækkun lána.

Síðastliðið vor ræddu aðilar vinnumarkaðarins um nauðsyn þess að vera tímanlega á ferðinni með  undirbúning kjarasamninga og stefnt var á að fyrstu fundir hæfust um miðjan september og síðan færi vinnan í gang af fullum þunga. Þessari vinnu þarf augljóslega að fresta þar til fjárlög eru fram komin og línur fara að skírast. Ljóst er að komandi fjárlög koma til með að skipta verulegu máli varðandi  efnahagsumhverfi  komandi árs. Með sama hætti kunna fyrirhuguð sparnaðaráform ríkisstjórnarinnar að reynast launafólki þung í skauti sérstaklega ef fyrirhugaðar aðgerðir fela í sér verulega lækkun eða afnám  vaxtabóta eða ríkisstjórnin hyggst fella niður lægsta skattþrepið í skattkerfinu og færa skattkerfið til fyrri vegar þar sem þeir lægstlaunuðu greiði hlutfallslega hærri skatta af tekjum sínum.

Engar aðgerðir eða umræður hafa átt sér stað um hvernig spyrna á við vaxandi verðbólgu en umræðan á borði atvinnurekanda og stjórnvalda speglast fyrst og fremst í því að hér eigi að gera „hófsama“ kjarasamninga. Minna er rætt um hlutverk stjórnvalda að skapa hér stöðugleika í efnahagslífinu eða því hlutverki atvinnulífsins að taka á sig hluta af þeim kostnaðarhækkunum sem ríða yfir samfélagið. Sveitafélögin koma síðan með sína árlegu hækkanir um áramótin þar sem sáralitlar eða engar tilraunir eru gerðar til þess draga úr hækkunum.  Tillagan gengur hins vegar út á hófsama kjarasamninga í umhverfi þar sem gjaldeyrishöftin eiga sinn þátt í því að  verðurbólgan skoppar upp og niður eins og korktappi.

Ljóst er að stefnt er að skammtímasamningi á vinnumarkaði. Samningstímabilið má síðan nýta til þess að skilgreina leiðir að lausnum. Við erum tilbúin að koma að uppbyggingu stöðugleika en það verður hins vegar ekki gert nema allir ofantaldir aðilar beri sína ábyrgð á þeim verkefnum sem fara þarf í til þess að skapa hann.

Við munum ekki axla ábyrgðina ein fyrir samfélagið.

Sigurður Bessason
formaður Eflingar-stéttarfélags