Vaxandi áhyggjur af fjárhagsstöðu Gallup 2013

22. 11, 2013

gallup13

Ný Gallup könnun

Vaxandi áhyggjur af fjárhagsstöðu

Ný Gallup könnun Flóafélaganna sýnir að félagsmenn hafa vaxandi áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni. Þá eru konur mun ósáttari með laun sín en karlar en þær eru með að meðaltali 120.000 krónum lægri heildarlaun en karlar.  Vinnutími stendur nokkuð í stað frá fyrra ári en ljóst er að veikindafjarvistir hafa aukist. Spurt var út í  viðhorf félagsmanna varðandi ýmsa þjónustu sem félögin veita og er ánægjulegt að sjá að yfirgnæfandi ánægja virðist vera með núverandi fyrirkomulag.  Margt athyglisvert má lesa út úr könnuninni í heild sem birt er í heild á heimasíðunni hér að neðan.

Konur eru með að meðaltali 120.000 krónum lægri heildarlaun en karlar
Karlar hafa að meðaltali um 120 þúsund krónum hærri heildarlaun en konur fyrir fullt starf. Heildarlaun karla í fullu starfi eru að meðaltali 414.000 kr. á mánuði og 294.000 kr. hjá konum. 
Þegar dreifing launa er skoðuð þá svarar 33% kvenna að þær séu með heildarlaun undir 250.000 kr. fyrir fullt starf og 9% karla. 
Munurinn á dagvinnulaunum karla og kvenna er mun minni en á heildarlaunum eða 43.000 krónur á mánuði.  Karlar eru að meðaltali með 298.000 kr. á mánuði í dagvinnulaun á meðan konur eru að með 255.000 kr. fyrir fullt starf.

Lægstu dagvinnulaun í umönnun og meðal leiðbeinenda
Af einstaka starfsstéttum eru starfsmenn sem vinna við umönnun og leiðbeinendur sem starfa á leikskólum með lægstu dagvinnulaunin þar sem starfsmenn í umönnun eru með að meðaltali 232.000 kr. og leiðbeinendur 241.000 kr.  Heildarlaun leiðbeinenda eru hins vegar lægst eða 252.000 kr. á mánuði að meðaltali á meðan heildarlaun starfsmanna í umönnun eru 298.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf. Helmingur leiðbeinenda er með undir 250 þús. kr. á mánuði í heildarlaun fyrir fullt starf og sama á við um tæplega 40% þeirra sem vinna við ræstingar.
Hæstu heildarlaunin er að finna  meðal þeirra þeirra sem starfa í álverum eða að meðaltali um 468.000 kr. á mánuði.  Þá eru þeir sem starfa við flutninga og samgöngur með 452.000 kr. á mánuði að meðaltali í heildarlaun og byggingastarfsmenn með 448.000 kr. á mánuði í heildarlaun.

Konur mun ósáttari með laun sín en karlar
Fleiri eru nú ósáttir með laun sín miðað við síðustu árin eða 55% félagsmanna samanborið við 51% fyrir ári.  Þá segist 64% kvenna vera ósátt með launin og innan við helmingur karla. Af einstaka starfahópum eru þeir sem starfa við umönnun og leiðbeinendur á leikskóla ósáttastir en þannig segjast 84% leiðbeinenda vera ósáttir með laun sín og rétt innan við 8 af hverjum 10 þeirra sem starfa við umönnun.

Vinnutíminn nánast óbreyttur
Um sex af hverjum tíu félagsmanna vinnur dagvinnu á meðan fjórir af hverjum tíu eru ýmist í vaktavinnu eða bæði í vaktavinnu og dagvinnu.
Heildarvinnutími félagsmanna í fullu starfi er að meðaltali 45,4 klst. sem er sami tímafjöldi og árið áður.  Karlar í fullu starfi vinna að meðaltali 48,6 klst. og konur 41.3 klst.  Sé hins vegar einnig horft til þeirra sem eru í hlutastarfi þá eru karlar að vinna að meðaltali 47 klst. og konur 37 klst.

Um helmingur starfa í umönnun unnin í hlutastarfi
Þeim fækkar á milli ára sem starfa í hlutastarfi en einn af hverjum fimm segjast vinna hlutastarf í sínu aðalstarfi.  Hjá þeim sem starfa við umönnun er þetta hlutfall hins vegar ennþá mjög hátt en rétt um helmingur þessa hóps segist vinna hlutastarf í sínu aðalstarfi.  Þá er það sláandi að af þessum stóra hlutavinnuhópi í umönnun segist um 71% vera í minna en 75% starfi.  Það er mjög mikilvægt þegar verið er að bera saman meðaltal heildarlauna umönnunarstarfa við aðra hópa er einungis um helmingur þeirra sem starfa við umönnun að fá greidd laun sem samsvara fullu starfshlutfalli.

Vaxandi áhyggjur af fjárhagsstöðu
Sá hópur sem hefur áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni fer stækkandi en um 56% félagsmanna segja að þeir hafi miklar áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni. Fyrir ári síðan sögðust um 48% hafa miklar áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni. Atvinnuleitendur og þeir sem hafa veika stöðu á vinnumarkaði skera sig sérstaklega úr þar sem um 73% þeirra segjast hafa miklar fjárhagslegar áhyggjur.  Af einstaka starfahópum eru þeir sem starfa við umönnun með mestar áhyggjur eða rétt innan við sjö af hverjum tíu félagsmönnum.  Þá eru einnig þeir sem starfa í iðnaðarstörfum með miklar áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni eða 63%.

Yfir helmingur félagsmanna telur vinnuálagið vera of mikið
Hlutfall þeirra sem telja vinnuálagið vera of mikið hefur hækkað milli ára þar sem að 54% félagsmanna telja það vera of mikið.  Einstaka starfahópar skera sig úr hvað þetta varðar, þannig segjast 72% leiðbeinanda á leikskólum að álagið sé of mikið og fimm af hverjum átta sem starfa við umönnun.  Þá er athyglisvert að sjá að þessir sömu hópar hafa verið meira frá vegna veikinda á síðustu þremur mánuðum.  Þannig sögðust rétt yfir helmingur leiðbeinenda og þeirra sem starfa við umönnun hafa verið frá einn dag eða lengur vegna veikinda á síðustu þremur mánuðum á meðan um 42% félagsmanna í heild hafði verið frá vegna veikinda á síðustu þremur mánuðum.  Einnig voru rétt yfir helmingur þeirra sem starfa í iðnaði með veikindafjarvistir á síðustu þremur mánuðum.

Ánægja með ýmsa þjónustu félaganna
Um helmingur félagsmanna hefur nýtt sér þjónustu stéttarfélagsins á síðustu tólf mánuðum samkvæmt þeim svörum sem liggja fyrir í könnuninni.  Þannig voru flestir að sækja sér heilsueflingar- eða fræðslustyrki en einnig nýttu sér margir þjónustu úr sjúkrasjóði, orlofssjóði eða leituðu sér aðstoðar varðandi kjaramál.  Einnig hefur þeim fjölgað sem leita aðstoðar hjá ráðgjöfum Virk endurhæfingarsjóðs.  Þá var ánægjulegt að sjá að yfirgnæfandi meirihluti var ánægður með þá þjónustu sem að félögin veita.

Margt fleira athyglisvert í könnuninni
Það er margt fleira sem er athyglisvert í þessari könnun, svo sem staða atvinnuleitenda og viðhorf til fræðslustyrkja. Fyrir áhugasama má sjá könnunina hér.  

Um könnunina
Markmiðið var að kanna kjör og viðhorf félagsmanna Eflingar, Hlífar og VSFK.
Könnunin var framkvæmd 5. september til 23. október 2013
Síma og netkönnum meðal 3300 félagsmanna með íslenskum, pólskum og enskumælandi spyrlum
Endanlegt úrtak 2781 en svarendur alls 1082 og svarhlutfall er 39%