Gott að fá annað sjónarhorn – Júlía leikskólaliði

19. 02, 2014

julia_leikskolalidi_mynd

Júlía York Khoo, leikskóla – og félagsliði á leikskólanum Langholti

Gott að fá annað sjónarhorn

Júlía York Khoo hefur ætíð haft gaman af að vinna með fötluðum og börnum og hefur gert það lengi vel. Hún hefur verið dugleg að sækja sér þá menntun sem Efling stéttarfélag hefur boðið upp á og er ein af tveimur Eflingarfélögum sem hefur bæði lokið leikskóla- og félagsliðanum en er nú sú eina í félaginu með þessa menntun þar sem hin hefur hafið önnur störf. Blaðamaður Eflingar fékk að forvitnast um hvað það var sem vakti áhuga hennar á náminu og hvað það er sem nýtist henni í starfi en hún starfar sem leikskólaliði á leikskólanum Langholti.

Ég vann á frístundaheimili og langaði að breyta til og prófa að vinna á leikskóla, ég hef alltaf haft gaman af að vinna með börnum, segir Júlía. Hún segir að þó hún verði oft þreytt eftir daginn þegar það eru mikil læti, gefi henni það svo mikla gleði að vera með börnunum að það fái hana til að halda áfram. Það eru fleiri dagar sem eru auðveldari en hitt og það er svo skemmtilegt og engir tveir dagar eru eins þrátt fyrir ákveðið skipulag.

Gott að hitta aðra
Hún ákvað að fara í leikskólaliðann til að bæta við sig þekkingu og fá hugmyndir og reynslu annarra til að bæta sig í starfi. Maður er dálítið í sínum ramma og það er gott að hitta aðra og fá þeirra sjónarhorn og öðlast öðruvísi sýn á hlutinn sem maður er að gera, segir hún. Mér finnst ég vera reynslunni ríkari eftir þetta nám og það geri starf mitt betra.

Aðspurð hvort hún hafi ekki spáð í því að skella sér í leikskólakennarann segir hún að eins og staðan sé núna heilli það hana ekki mikið. Það er kannski af því að þetta er fimm ára nám en ekki þrjú eins og áður var en það gæti verið að ég færi einhvern daginn.

Af hverju félagsliði ?
Júlía hefur unnið á leikskóla á níunda ár og kláraði leikskólaliðann fyrir tveimur árum og tók félagsliðann í beinu framhaldi og lauk honum síðasta vor. En af hverju ákvað hún að taka félagsliðann líka ? Þegar ég byrjaði að vinna hér var ég stuðningsforeldri fyrir fatlað barn og þess vegna langaði mig líka að bæta félagsliðanum við. Hún segist vel geta hugsað sér að taka eina og eina vakt á stofnun og vinna með fötluðum líka.

En nýtist félagsliðanámið henni í leikskólastarfinu? Já, eftir að ég tók þessi tvö nám hef ég miklu meiri þekkingu á sviðum sem ég var ekki endilega að pæla í . Eins ef það kæmi fatlaður einstaklingur í leikskólann þá gæti það hjálpað mér að annast hann ef ég fengi það hlutverk, segir Júlía en hún tók fötlun sem valfag í félagsliðanáminu.

Margt sameiginlegt
Aðspurð hvor að það sé munur á þessum tveimur námsleiðum segir hún að uppbygging kennslu hafi verið svipuð en í leikskólaliðanum hafi verið meira einblínt á börnin og í félagsliðanum á fatlaða einstaklinga sem eru fullorðnir eða aldraðir. Ég fékk einhver fög sem ég var búin með í leikskólaliðanum metin, að vissu leyti tengist þetta er er samt sitthvor hluturinn.

Júlía er skráð í Félag íslenskra félagsliða og reynir að mæta á fundi hjá bæði leikskóla- og félagsliðum hjá Eflingu. Ég er svo heppin að síðustu tvö skiptin hafa verið sameiginlegir fundir en ég fæ alltaf tvö fundarboð, segir hún. Það sem hélt mér uppi var hvað námið var skemmtilegt.

Langir dagar
Það er ekki úr vegi að spyrja þessa kraftmiklu ungu konu sem tók báðar námsleiðir með vinnu hvort hún hyggi á áframhaldandi nám. Ef það er eitthvað sem heillar mig er mikill möguleiki að ég haldi áfram en það er ekki neitt sem er í boði núna í sambandi við leikskóla- eða félagsliðann sem ég get tekið. Framhaldsnám félagsliða sem var kennt í haust var um geðraskanir og fatlanir og þar sem Júlía tók fötlun sem valfag í félagsliðanum var hún búin með of mikið. Ef ég hefði tekið öldrun sem valfag hefði ég komist í framhaldsnám en ég var í raun búin með of mikið, ég var að vonast til að framhaldsnámið hefði verið um alzheimer en svo var ekki, segir hún.

Var ekki erfitt að vera í námi með vinnu? Þetta voru langir dagar, ég var mætt klukkan átta um morgun og var komin heim um níu, þannig að þetta voru um 12 -13 tíma dagar. Það sem hélt mér uppi var hvað námið var skemmtilegt, segir Júlía að lokum.