Sáttatillaga ríkissáttasemjara í atkvæðagreiðslu

21. 02, 2014

samninganefnd_floa_samthykkir_ad_senda_sattatillogu

Samninganefnd Flóafélaganna

Sáttatillaga ríkissáttasemjara í atkvæðagreiðslu

Á fjölmennum fundi samninganefndar Flóafélaganna, Eflingar, Hlífar í Hafnarfirði og VSFK í Keflavík í gærkvöldi samþykkti nefndin með nær einróma niðurstöðu að senda nýja sáttatillögu ríkissáttasemjara  sem hann lagði fram síðdegis í gær til afgreiðslu félagsmanna á almennum markaði. Samningurinn er afturvirkur frá og með 1. febrúar 2014. Jafnframt  felur hann í sér eingreiðslu upp á 14.600 kr. auk hækkana á orlofs- og desemberuppbótum samtals um 32.300.-kr.

Mikið þrátefli hefur ríkt í samningamálum á almennum markaði eftir að um helmingur félaganna innan ASÍ felldi kjarasamning í atkvæðagreiðslunni sem tilkynnt var þann 22. janúar sl. Atvinnurekendur hafa lengst af haldið sig við sama kostnaðarramma  og sömu launatölur þar til að tillaga kom fram í vikunni um eingreiðslu inn í samninginn auk hækkana á orlofs- og desemberuppbót auk þess sem samningstími er lengdur til 28. febrúar 2015.

Í gær, fimmtudag, lagði ríkissáttasemjari fram sáttatillögu, svokallaða innanhússtillögu til þeirra félaga sem felldu samninginn og höfðu í gærkvöldi flest þeirra þegar samþykkt að senda samninginn í atkvæðagreiðslu en Flóafélögin eru með mjög fjölmenna samninganefnd sem eins og fyrr segir var kölluð saman í gærkvöldi til að fjalla um sáttatilboðið og taka afstöðu til þess hvort ætti að senda það í atkvæðagreiðslu. Það var nær einróma niðurstaða að halda áfram á sömu forsendum og einróma samþykkt að senda samninginn þannig breyttan í atkvæðagreiðslu.

Samningurinn er afturvirkur og gildir hann frá 1. febrúar 2014. Jafnframt kemur sérstök eingreiðsla fyrir janúarmánuð miðað við starfshlutfall kr. 14.600.-

Desember og orlofsuppbætur hækka samtals um 32.300.- kr. frá síðast gildandi kjarasamningi. Desemberuppbót miðað við fullt starf verður á árinu 2014  kr. 73.600.- Orlofsuppbót fyrir orlofsárið sem hefst 1. maí 2014 miðað við fullt starf verður á árinu 2014  kr. 39.500.-

Ekki hefur komið fram ennþá með óyggjandi hætti hvort stjórnvöld gefa út yfirlýsingu um aðgerðir í útgjöldum vegna heilbrigðismála nánar tiltekið í gjaldskrám vegna læknaþjónustu  og þjónustu á heilsugæslustöðvum. Líkur voru taldar á því í gærkvöldi eftir viðræður við ráðherra.

Þegar er hafin vinna við undirbúning atkvæðagreiðslu Flóafélaganna og verða atkvæðaseðlar sendir út eftir helgi  en tilkynna skal niðurstöðu í atkvæðagreiðslu Flóans fyrir kl. 16.00 föstudaginn 7. mars nk.