Stjórnarráðið fann sparnaðarleið: Með því að segja upp ræstingarfólki

Vega að tekjulægsta hópi samfélagsins

Stjórnarráð Íslands hefur nú fetað í fótspor ýmissa annarra fyrirtækja á almennum og opinberum markaði.  Tilkynnt hefur verið um hópuppsögn félagsmanna Eflingar hjá ríkinu sem eru  í ræstingarstörfum. Ljóst er að um er að ræða tekjulægsta hóp Stjórnarráðsins og allt konur á þeim aldri sem erfitt er að fá sambærileg störf annars staðar á sömu kjörum.  Um 18 konur eru hér að missa vinnuna, þar af eru sex eldri en 60 ára og sjö á aldrinum 50 til 60 ára.  Starfshlutfall er mismunandi en flestar eru að fá greitt miðað við 60 – 70% starfshlutfall.

Í ræstingarstörfum háttar þannig til í dag að hlutfall vinnuafls sem er af erlendu bergi brotið er mjög hátt eða yfir 85%. Það vekur athygli í tilviki Stjórnarráðsins að í hópuppsögninni nú eru allar konurnar íslenskar sem missa vinnuna en með auknum útboðum hjá ríki og sveitarfélögum hafa ræstingarstörf færst yfir til ræstingarfyrirtækja á almenna markaðnum.  Erlendi hópurinn þekkir síður rétt sinn og er því miður oft tilbúinn að sætta sig við kjör og vinnuaðstæður sem í mörgum tilvikum er undir því sem  kjarasamningar kveða á um.

Fyrir á þessu ári sendi Efling bréf á íslensku, pólsku og ensku á alla félagsmenn sem vinna hjá ræstingarfyrirtækjum með upplýsingum um kjör og helstu ákvæði ræstingasamnings sem gildir á almenna markaðnum.  Einhverjar fyrirspurnir bárust félaginu í framhaldinu en það er ljóst að félagið þarf nú að herja enn frekar á þau fyrirtæki sem eru að greiða undir lágmarkskjörum.

Á undanförnum árum hefur störfum félagsmanna Eflingar hjá ríkinu verið fækkað markvisst.  Þannig var þessi hópur ríflega 700 árið 2008 en er nú rétt um 400 manns.  Uppsagnir hjá Landspítalanum vega þar þyngst.  Ríkisfyrirtækin telja sig geta sparað umtalsverða fjármuni með því að bjóða út störf félagsmanna Eflingar þar sem að ræstingarfyrirtæki leggja talsvert kapp á að undirbjóða hvert annað sem  bitnar á endanum á félagsmönnum í rýrum kjörum og auknu álagi.