Þjóðarsátt eða yfirlýsing um stríð?

19. 01, 2015

Minna framlag til jöfnunar á örorkubyrði skerðir lífeyri verkafólks og sjómanna

Í alþjóðlegum samanburði getum við með sanni staðið við þá fullyrðingu að búa við öflugt lífeyrissjóðakerfi á Íslandi. Kerfi sem miðar að þeirri sjálfbærni að hver og einn sjóðfélagi hafi lagt til sjóðsmyndunar sem tryggir lífeyri þegar starfsævi lýkur.  Það er ekki síður mikils virði þegar horft er til þess að þjóðin er stöðugt að eldast og því munu færri vinnandi hendur verða til þess að halda uppi velferðarkerfinu þegar fram í sækir. Í nýjum fjárlögum eru áform um lækkun á framlagi til jöfnunar örorkubyrði til lífeyrissjóða verkafólks og sjómanna, sem þýðir beina skerðingu á lífeyri þessara hópa. Þessi áform ganga gegn öllum markmiðum um þjóðarsátt sem ríkisstjórnin segist styðja.

Það öfluga lífeyrissjóðakerfi sem við búum við kom hins vegar ekki af sjálfu sér og kostaði bæði fórnir og átök á vinnumarkaði.  Það hefur þurft samstillt átak aðila vinnumarkaðarins að gefa eftir hluta af almennum launahækkunum í undangengnum kjarasamningum fyrir tryggan lífeyri til efri áranna.

Þar sem samið var um núgildandi lífeyrisréttindi í kjarasamningum eru stærstu lífeyrissjóðirnir einnig að endurspegla þá starfahópa sem heyra undir viðkomandi kjarasamninga.  Hlutfall örorkuþáttar er þar af leiðandi hærra í lífeyrissjóðum þar sem starfahópar eru frekar settir undir aukna áhættu í slysum eða vinnuálagi svo sem almennt verkafólk og sjómenn.

Við höfum alla tíð  haldið því fram að aukin áhætta vegna slysa og vinnuálags í vissum störfum væri á ábyrgð samfélagsins. Til þess að koma til móts við  þessa skyldu ríkisins fylgdi yfirlýsing ríkisstjórnar í lok ársins 2005 um jöfnun á örorkubyrði sem ein af forsendum kjarasamninga sem skrifað var undir 2006 og var lögfest ári síðar á Alþingi. Þannig samþykktu stjórnvöld í reynd þessa ábyrgð sína.

Í nýjum fjárlögum eru áform um að fella niður þessar árlegu greiðslur sem ætlaðar eru til jöfnunar á örorkulífeyrisbyrði lífeyrissjóðanna.  Ef þau áform ná fram að ganga eru forsendur fyrri kjarasamninga brostnar og jafnframt má spyrja hvort stjórnvöld eru með þessu að varpa stríðshanska inn í komandi kjarasamningsviðræður.

Heyrst hafa skilaboð meðal annars frá ríkisstjórninni að horfa þurfi til þjóðarsáttar í komandi kjarasamningum.  Telur ríkisstjórnin niðurfellingu örorkuframlagsins vera gott innlegg í þjóðarsátt sem þýðir að verkfólk og sjómenn eigi að gefa eftir hluta af sínum launahækkunum til þess að mæta þeim fórnarkostnaði að sinna áhættusömum störfum ?

Þá er ljóst að þessi áformaða breyting mun ekki jafna lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum markaði, heldur auka þennan mismun þar sem opinberir starfsmenn fá skerðingar sjóðanna bættar frá skattgreiðendum eins og verið hefur.

Einnig er vert að halda því til haga að á sama tíma og stjórnvöld sjá ástæðu til þess að skerða lífeyrisréttindi þeirra sem minnst hafa eru engar tillögur sjáanlegar um hvernig taka eigi á þeim gríðarlega halla sem lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna standa frammi fyrir.

Ef áform ríkisstjórnar um niðurfellingu örorkuframlagsins nær fram að ganga bíður stjórnar Gildis-lífeyrissjóðs það hlutverk að skerða réttindi sjóðfélaga um allt að 4,5% á næstu fimm árum.

Það eru kaldar kveðjur sem fara engan veginn saman við markmið um þjóðarsátt á vinnumarkaði.

Harpa Ólafsdóttir, formaður stjórnar Gildis