Hvernig er staðan í kjarasamningum Eflingar og Flóa?

24. 03, 2015

Samningamál í höndum samninganefnda

Mjög mikið er hringt og haft samband við skrifstofu Eflingar vegna stöðunnar í kjarasamningum félagsins og Flóabandalagsfélaganna. Mikilvægt er að upplýsa á þessari stundu að Flóabandalagsfélögin eru enn í viðræðum við Samtök atvinnulífsins þar sem verið er að ræða fjölmörg mál ýmissa samninga. Minnt er á að kröfugerð Flóafélaganna gerir ráð fyrir eins árs samningstíma enda ekki traust til staðar gagnvart ríkisvaldi varðandi samninga til lengri tíma.Bæði er um að ræða aðalkjarasamninga við SA, tengda samninga, sérkjarasamninga og fyrirtækjasamninga. Ennþá eru kjarasamningar undir stjórn félaganna og SA og þeim hefur ekki verið vísað til sáttasemjara. Ef samningaviðræður reynast árangurslausar, kemur að því að félögin vísa málum til sáttasemjara og í framhaldi af því munu félögin eflaust ræða hvort boða eigi til verkfalla til að þrýsta á kröfur félagsmanna. En meðan málin eru í viðræðufarvegi, eru verkfallsmál í biðstöðu.Minnt er á að öll samningamál félaganna er í höndum stóru samninganefndarinnar en þar eru teknar ákvarðanir um framvindu samninganna og ákvarðanir um verkfallasboðanir ef til þeirra kemur. Allar verkfallsboðanir byggja á atkvæðagreiðslum viðkomandi hópa félaganna, stjórnum félaganna og samningnefndar Flóabandalagsins í samræmi við lögin um stéttarfélög og vinnudeilur.Frekari upplýsingar er varða breytingar á stöðunni verða kynntar á heimasíðu félagsins.