Mikil misskipting kallar á átök

Rætt við Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍHvert er mat þitt á stöðunni núna eins og hún er innan ASÍ, stöndum við óumflýjanlega frammi fyrir átökum?Það er í rauninni komin upp mjög alvarleg staða þegar litið er til aðstæðna á vinnumarkaði og ljóst að mjög vandasamt verður að vinna úr stöðunni, segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í samtali við Eflingarblaðið. Fyrir ári lögðum við til við okkar félagsmenn að gert yrði vopnahlé í eitt ár og gerðum við svokallaðan aðfararsamning. Það var skammtíma kjarasamningur sem byggði á þeirri forsendu að ná niður verðbólgu og tryggja stöðugleika. Í millitíðinni ætluðum við, ásamt fulltrúum annarra samtaka launafólks, að nýta tímann til þess að ræða við atvinnurekendur og stjórn-völd um forsendur langtíma kjarasamninga. Markmið okkar var að innleiða hér norræn vinnubrögð bæði af hálfu stjórnvalda við stjórn efnahags-, atvinnu- og gengismála svo ekki sé talað um áherslur í skatta- og velferðarmálum og á þeim grunni að endurskoða framkvæmd viðræðna um gerð kjarasamninga til að losna út úr vítahring höfrungahlaupsins, þar sem einn hópur reynir að klifra upp á bak annars. Nú þegar við höldum upp á 25 ára afmæli Þjóðarsáttarsamninganna er vert að rifja það upp, að þáverandi formaður Dagsbrúnar og Verkamannasambandsins, Guðmundur J. Guðmundsson, lagði mikla áherslu á það við undirritun þeirra samninga að allir yrðu að vera með, að fara svipaða leið í kjaramálum, annars yrði ekkert úr þeim samningum.Markmið síðustu samninga gengu uppGylfi bendir á að margir félagsmenn Alþýðusambandsins hafi verið fullir efasemda um að staðið yrði við þau fyrirheit sem lágu til grundvallar samningunum sem gerðir voru á vetrarsólstöðum 2013. Enda felldi meira en helmingur aðildarfélaga ASÍ samningana, þar á meðal Efling-stéttarfélag. Það hafði vissulega áhrif að verðbólgan var um 4% þegar við sömdum, en öll teikn bentu til þess að verðbólgan myndi hjaðna mjög hratt á fyrstu mánuðum ársins 2014. Þegar verðbólgutölur fyrir janúar og febrúar lágu fyrir og verðbólgan var komin í 2,1% féllust félagsmenn þeirra félaga sem fellt höfðu samningana á innihaldið með þeirri hækkun sem varð á orlofs- og desemberuppbót. Markmið þessara kjarasamninga fyrir rúmu ári síðan var að auka kaupmátt, einkum þeirra tekjulægstu, og tryggja stöðugleika í gengi og verðlagi. Enginn vafi er á því nú, að þetta markmið gekk eftir. Verðbólgan á árinu 2014 hefur ekki verið lægri í 25 ár og kaupmáttur vaxið meira en við höfum séð lengi. Ef rétt hefði verið haldið á málum og okkur tekist að ná breiðri samstöðu um þessa leið stæðu okkur nú allar leiðir færar til að treysta hér lífskjör og bæta velferð í yfirstandandi viðræðum um endurnýjun kjarasamninga.gylfi_Siggi_Olofia_asiForystumenn ASÍ eftir kjör á síðasta ASÍ þingi. Sigurður Bessason, Gylfi Arnbjörnsson og Ólafía B. Rafnsdóttir.Aðrir fengu leiðréttingar langt umfram ASÍGylfi segir að því miður hafi það tækifæri horfið frá okkur. Ljóst er að eftir að aðildarfélög ASÍ sömdu við SA í ársbyrjun og ASÍ ásamt BSRB við fjármálaráðuneytið og Reykjavíkurborg í byrjun mars snéru samninganefndir ríkisins og sveitarfélaganna við blaðinu og hófu viðræður við háskólamenn og kennara á allt öðrum forsendum. Nú var ekki lengur rætt um hinn kalda veruleika efnahagsmálanna og svigrúm til launabreytinga á grundvelli stöðugs gengis og verðlags, heldur fengu réttlætið og leiðréttingarnar miðað við liðinn tíma miklu meira svigrúm í viðræðunum. Háskólamenn hjá sveitarfélögunum riðu á vaðið með ríflega 9% launahækkun í árssamningi og síðan kennarar á öllum skólastigum með um 30% launahækkun í 2,5 ára samningi. Lokapunkturinn var síðan kjarasamningur lækna sem tryggði 30% launahækkun fyrir hóp sem er með um 1,2 milljónir króna að meðaltali í mánaðartekjur.Ríkisstjórn ríka fólksinsForseti Alþýðusambandsins ber ríkisstjórninni ekki vel söguna. Hún hafi haft lítil sem engin samskipti eða samráð við aðila vinnumarkaðarins um lykilþætti eins og gengis- og peningamál, stöðu þríhliða samráðsins á vinnumarkaði eða samráð um mótun breytinga í skattamálum. Þegar fjárlögin komu fram í byrjun október, blasti við hrein og klár árás á réttindi og kjör almenns launafólks með styttingu bótatímabils í atvinnuleysi um 6 mánuði. Framlög til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða átti að afnema og lífeyrisréttindi verkafólks og sjómanna skerðast verulega, framlög til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs voru felld niður. Í rauninni má segja að ríkisstjórnin hafi einhliða sagt upp áratuga samstarfi og samráði við aðila vinnumarkaðarins. Samhliða var ráðist að kjörum lágtekjufólks með hækkun á matarskatti, en áður hafði ríkisstjórnin hafnað að framlengja auðlegðarskattinn og hún lækkaði verulega auðlindaskatt sjávarútvegs þrátt fyrir met-afkomu. Áfram hefur verið haldið í gjaldtöku í heilbrigðismálum, þar sem fjöldi heimila getur vart leitað sér lækninga vegna kostnaðar og engin úrræði er að hafa í miklum húsnæðisvanda lágtekjufólks.Ríkisstjórnin er algerlega grímulaus í því hverja hún vinnur fyrir. Þetta er ríkisstjórn ríka fólksins. Misskipting tekna og eigna eykst sem aldrei fyrr og hvert sem litið er blasir við óréttlæti og ósanngjörn staða og ekki verður séð að stjórnvöld hafi mikinn áhuga á því að stíga inn í þetta með mildandi hætti. Það er því nánast óumflýjanlegt fyrir verkalýðshreyfinguna að bregðast við þessu og kalla eftir liðsinni sinna félagsmanna í hörðum átökum. Við getum ekki látið þetta viðgangast því þetta snýst um réttmætan hlut okkar félagsmanna í þeim verðmætum sem verða til í landinu, um réttinn til þess að búa sér og sínum viðunandi lífskjör og öryggi.Trúverðugleiki stjórnvalda horfinnEr ekki ljóst að langtímasamningur við þessar aðstæður er úr sögunni þar sem enginn trúverðugleiki er í stöðunni milli aðila vinnumarkaðar og ríkisstjórnarinnar. Eru einhverjar líkur á því að breyting verði þar á?Ef marka má viðbrögð oddvita ríkisstjórnarinnar og meirihlutans á Alþingi við athugasemdum Alþýðusambandsins við frumvarpið að fjárlögum er ekki líklegt að von sé á breyttum viðhorfum af þeirra hálfu. Ríkisstjórnin var mjög staðföst í því að herja á réttindi okkar fólks og hefur ekki sýnt neinn  vilja til að koma til móts við erfiða stöðu mikils fjölda okkar félagsmanna sem búa við kröpp kjör. Áhugaleysi þeirra og skilningsleysi á aðstæðum þessara félaga okkar er í rauninni með ólíkindum og því ekki gæfulegt fyrir okkur að hugsa til lengri tíma en árs í senn.Viðraðar hafa verið hugmyndir um útspil stjórnvalda í húsnæðismálum, lífeyrismálum er varða jöfnun lífeyrisbyrðarinnar og vegna starfsendurhæfingar. Eru einhverjar líkur á því að á þeim vikum sem við höfum til stefnu, verði alger stefnubreyting stjórnvalda í átt til sjónarmiða ASÍ og SA?Alþýðusambandið hafði frumkvæði að því að taka húsnæðismálin til umræðu fyrir nokkrum misserum og lagði fram fullmótað frumvarp um nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd sem og útfærðar tillögur að félagslegu húsnæðiskerfi – verkamannabústaðakerfi – sem gert gæti tekjulágu fólki kleift að búa sér og sínum fjölskyldum viðunandi og öruggt húsnæði.  Þrátt fyrir mikla umræðu hefur ekkert bólað á úrlausnum og engir fjármunir hafa verið lagðir fram til að skapa forsendur fyrir slíkri lausn. Aukin framlög til húsaleigubóta um áramótin vegna deilna um hækkun matarskattsins duga t.d. ekki til þess að mæta hækkandi húsaleigu hvað þá afleiðingum hækkunar á lífsnauðsynjum. Ég sé það hins vegar ekki fyrir mér að hægt verði að leysa þessi ágreiningsefni í tengslum við gerð kjarasamninga. Ríkisstjórnir sem efna ekki fyrirheit sín geta ekki komið inn í erfiða kjaradeilu til lausnar einfaldlega vegna þess að enginn treystir því að það sem sagt er verði efnt! Oddvitar á vettvangi stjórnmála eiga að vera það vandir að virðingu sinni að það sem þeir segja og lofa standi eins og það væri meitlað í stein, segir Gylfi.Láglaunafólk á ekki að axla ábyrgð á stöðugleikanumEr ekki ljóst að eini raunverulegi val-kosturinn sem eftir er, er skammtímasamningur til árs þar sem reynt verður áfram að undirbyggja nýjan stöðugleika?Það er mín skoðun að aðildarfélög ASÍ eigi við þessar erfiðu aðstæður að horfa til skammtímasamnings, helst ekki lengri en til loka nóvember. Það er ljóst að það má ekki standa upp frá þessu borði öðruvísi en að okkar fólk hafi fengið leiðréttingu sinna kjara m.v. það sem gerst hefur í kjarasamningum annarra, þ.e. kennara og lækna. Það er ekkert réttlæti í því að tekjulægsta fólkið eigi eitt að axla ábyrgð á stöðugleikanum með hógværum launahækkunum á meðan aðrir fái ríflegar launahækkanir með kaupmáttartryggingu. Jafnframt tel ég mikilvægt að við ásamt BSRB höldum áfram að ræða við félaga okkar í öðrum heildarsamböndum og þá sem standa utan sambanda, hvort ekki sé rétt að skoða betur Norrænu leiðina og bindast fastmælum um að deila hér kjörum þannig að jafnræði verði milli hópa, en tryggja jafnframt að enginn verði skilinn eftir í þróun sinna kjara.Hvað segir þú um þann málflutning að stöðugleikinn sé ekki lengur ákjósanlegt markmið fyrir þjóðfélagið?Ég hef í rauninni miklar áhyggjur af þessum málflutningi. Við höfum séð það þegar við berum saman kjör einstakra starfsstétta hér á landi við félaga okkar á hinum Norðurlöndunum að það hallar mest á tekjulægsta fólkið, á afgreiðslufólk í þjónustu og verslun og verkafólk. Meginástæður þessa er samkvæmt minni reynslu tvíþætt. Annars vegar hafa félagar okkar á hinum Norðurlöndunum sameinast um samræmda launastefnu sem byggir á þeirri forsendu að hækka þá tekjulægstu alltaf aðeins meira en aðra, m.a. með krónutöluhækkunum, og hins vegar með því að treysta á stöðugleikann með lágri verðbólgu og lágum vöxtum því verðbólgan hefur alltaf verið versti óvinur almenns launafólks, segir Gylfi. Varðandi afleiðingar af þessari stöðu vitnaði Gylfi í fyrrum formann Dagsbrúnar, Guðmund J. Guðmundsson, þegar hann svaraði spurningum blaðamanna um ávinninginn af Þjóðarsáttarsamningunum. Ef einhver hópur fer að vaða upp í hækkunum fyrir ofan almennt verkafólk, þá er þetta búið. Menn þurfa að átta sig á því að það verður að byggjast á gagnkvæmu jafnræði á milli hópa. Það þýðir ekki að einhverjir sérhópar keyri áfram og valti yfir aðra. Þá er þetta hrunið og það hrynur yfir þá hina sömu.