Aðalfundur heimilar undirbúning verkfalla

29. 04, 2015

Mikil samstaða ríkti á aðalfundi Eflingar-stéttarfélags, sem haldinn var á Grand hóteli í gærkvöldi, þegar fundurinn samþykkti einróma tvær tillögur, annars vegar að undirbúa og boða til verkfalla á almennum vinnumarkaði og hins vegar að veita allt að átta hundruð milljónum króna úr félagssjóði til vinnudeilusjóðs ef nauðsyn krefði vegna yfirvofandi verkfalla.Sigurður Bessason sagði að þetta væri varúðarráðstöfun ef til langvarandi aðgerða kæmi en eigið fé í vinnudeilusjóði nú er 2,2 milljarðar króna. Jafnframt heimilaði aðalfundur stjórninni að leita samstarfs við Flóafélögin, VSFK og Vlf. Hlíf  undir samninganefnd Flóabandalagsins, sem og VR og Landssamband verslunarmanna um fyrirkomulag og tímasetningar verkfalla. Félagsmenn þessara félaga eru samtals 52.000 og því er ljóst að verkföllin hafa gífurleg áhrif ef til þeirra kemur. Sigurður Bessason sagði að þetta væri rökrétt framhald þar sem samningaviðræður við Samtök atvinnulífsins hefðu verið árangurslausar.Ljóst væri að félagsmenn myndu ekki sætta sig við lágar prósentuhækkanir á meðan aðrar starfsstéttir fá mun meira en fólkið sem væri á lægstu laununum.  Félagsmenn Eflingar ætla ekki vera einir um að tryggja stöðugleika með hóflegum launahækkunum. Efling-stéttarfélag er því tilbúið í átök.Rætt hefur verið um að verkföll hefjist hugsanlega um mánaðamót maí og júní.