Um hvað snúast samningarnir?

27. 04, 2015

Félagsmenn Eflingar er að finna um allt samfélagið á höfurborgarsvæðinu, á fjölmennum vinnustöðum og í mjög mikilvægum störfum. Samfélagið mun finna fyrir því ef þessi hópur grípur til verkfalla.

Lagt var upp með kjarasamning til eins árs og 35 þúsund króna lágmarkslaunahækkun í launatöflu og að lægsta upphafstala í launatöflu verði 240.000 krónur.  Þá er gerð krafa um að launataflan verði lagfærð með því að auka aftur bil á milli flokka og þrepa en einnig að eingreiðsla mæti þeim launahækkunum sem urðu umfram almennar kjarasamningshækkanir á síðasta samningstímabili.  Áhersla er lögð á að viðræður um aðal- og sérkjarasamninga fari fram samhliða launaviðræðum

Um 22.000 félagsmenn eru í Eflingu-stéttarfélagi en fjölmennasti hópurinn er á samningssviði Samtaka atvinnulífsins eða yfir 17.000 félagsmenn.  Samningar á almenna markaðnum hafa verið lausir frá því í lok febrúar á þessu ári en Flóabandalagið fer með sameiginlegt samningsumboð fyrir Eflingu, Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur.  Fjöldi félagsmanna í Flóabandalaginu á almenna markaðnum er rétt innan við 20.000.

Störf félagsmanna Eflingar á almenna markaðnum eru afar fjölbreytt svo sem störf í iðnaði, fiskvinnslu, ræstingastörf, mötuneytisstörf og hópbifreiðastörf.  Ferðaþjónustan er ört vaxandi starfsgrein og telja félagsmenn Eflingar nú yfir fimm þúsund manns sem eru starfandi í henni. Félagsmenn Eflingar er þannig að finna um allt samfélagið á höfurborgarsvæðinu, á fjölmennum vinnustöðu og í mjög mikilvægum störfum. Þannig mun samfélagið finna fyrir því ef þessi fjölmenni hópur grípur til verkfalla.

Þá eru sérsamningar og hópar sem heyra undir almenna markaðinn svo sem bensínafgreiðslustörf, öryggisvarsla, hafnarvinnustörf, störf hlaðmanna á Reykjavíkurflugvelli og starfmenn sem starfa á einkareknum leikskólum.

Hafa viðræður átt sér stað um sérmál í flestum þessum hópum með aðkomu trúnaðarmanna.

Kjarasamningar við ríki og hjúkrunarheimili eru lausir 1. maí næstkomandi en einnig samningar við Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga.  Um fimm þúsund félagsmenn Eflingar starfa á þessum opinberu samningssviðum.

Ekki hafa verið lagðar fram kröfur á opinbera markaðnum þar sem mikil óvissa ríkir enn um samninga á almenna markaðnum.

Nánari upplýsingar má fá hjá félaginu í síma 510-7500 eða heimasíðu félagsins www.efling.is undir kjaramál.