Hlé á kjarasamningsviðræðum við opinbera vinnumarkaðinn

Enn á eftir að ganga frá kjarasamningum og semja um launahækkanir fyrir stóran hóp félagsmanna Eflingar þar sem viðræður ganga almennt hægt á opinbera vinnumarkaðnum.  Um það bil fimm þúsund félagsmenn Eflingar starfa á þessum opinberu samningssviðum en samningarnir þar voru lausir tveimur mánuðum síðar en á almenna markaðnum eða 1. maí síðastliðinn.Hér undir falla félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg en einnig hjá öðrum sveitarfélögum sem heyra undir Samband íslenskra sveitarfélaga svo sem Kópavogi, Seltjarnarnesi og Hveragerði. Þá eru einnig hópar sem almennt hafa tekið mið af niðurstöðum sveitarfélagasamninga svo sem einkareknir leikskólar, Sorpa, Orkuveitan og Faxaflóahafnir.Undir opinbera samningssviðið eru einnig starfsmenn ríkisins svo sem félagsmenn Eflingar sem starfa á Landspítalanum og fleiri ríkisstofnunum. Þá taka einnig mið af ríkissamningnum fjölmennir hópar félagsmanna Eflingar sem starfa á hjúkrunarheimilum og öðrum sjálfseignarstofnunum.Fyrri part sumars var fundað með trúnaðarmönnum hjá fjölmennustu hópunum og farið yfir megináherslur en talsverð óvissa ríkir ennþá um samninga á opinbera sviðinu á meðan enn er ósamið við fjölmenna hópa eins og hjúkrunarfræðinga og BHM.Það er hins vegar ljóst að niðurstaða kjarasamninga á almenna markaðnum hefur mótandi áhrif á launastefnu opinbera hópsins og hefur Efling lagt áherslu á að sambærileg niðurstaða nái fyrir félagsmenn Eflingar sem starfa á opinbera sviðinu og niðurstaða varð um á almenna markaðnum.Hlé verður gert á kjarasamningsviðræðum á opinbera samningssviðinu í júlímánuði og boðað til funda að nýju í byrjun ágústmánaðar. Samningsaðilar hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis að ef viðræðum verði lokið fyrir 1. október næstkomandi þá muni kjarasamningar gilda afturvirkt frá því að kjarasamningar runnu út eða 1. maí síðastliðinn.