Kjarasamningar við ríki og hjúkrunarheimili – Skrifað undir kjarasamning við ríki

Hátt í þrjú þúsund félagsmenn í Eflingu, Hlíf og VSFK taka mið af kjarasamningi við ríki og hjúkrunarheimili.  Það er því mikið ánægjuefni að loks hefur verið skrifað undir nýjan kjarasamning við ríkið en félagsmenn höfðu verið án kjarasamnings frá 1. maí síðastliðnum. Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. maí 2015 til 31. mars 2019.

 • Kjarasamningurinn felur í sér verulegar launahækkanir við upphaf samnings þar sem að launataxtar hækka um 25.000 kr. eða að meðaltali um 9,78%.
 • Launataxtar hækka að lágmarki um 15.000 kr. 1. júní 2016 auk leiðréttingar á launatöflu sem jafngildir 5,9% hækkun að meðaltali.
 • Þann 1. júní 2017 hækka launataxtar um 4,5%.
 • Þann 1. júní 2018 hækka laun um 3%.
 • Sérstök eingreiðsla kemur 1. febrúar 2019 að upphæð kr. 45.000, miðað við þá sem eru í fullu starfi 1. janúar 2019 og hlutfallslega fyrir þá sem eru í hlutastarfi.
 • Lagðar verða til 20 milljónir árlega árin 2016 – 2018 til þess að samræma stofnanasamninga þar sem horft verður til þess að leiðrétta sérstaklega þá hópa sem eru með lægri innröðun en aðrir sambærilegir hópar.
 • Framlag í fræðslusjóð eykst um 0,15% og verður 0,82% sem er mjög jákvætt skref til þess að efla félagsmenn enn frekar í starfi.
 • Launataxtar fyrir tímamælda ákvæðisvinnu í ræstingum hækka um tæplega 34% á samningstímanum.
 • Tekjutryggingin hækkar um 86.000 kr. á samningstímanum og verður komin í 300.000 kr. l. maí 2018.
 • Orlofsuppbót hækkar um 21,5% á samningstímanum og fer í 42.000 kr. við upphaf samnings en verður komin í 48.000 kr. í lok samnings.
 • Desemberuppbót hækkar um tæplega 21% og fer í 78.000 kr. á árinu 2015 en 89.000 í lok samningstíma.

Stefnt verður að því að ganga frá sambærilegum samningi við hjúkrunarheimilin á allra næstu dögum og senda samningana í framhaldinu í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna.  Munu niðurstöður atkvæðagreiðslu liggja fyrir þann 30. október næstkomandiSamninginn í heild sinni má nálgast hér.