Formaður sjúkraliða skuldar almennu starfsfólki í umönnun afsökunarbeiðni

12. 11, 2015

Yfirlýsing Eflingar-stéttarfélags

 

Formaður sjúkraliða

Skuldar almennu starfsfólki í umönnun afsökunarbeiðni

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi fjallaði formaður Sjúkraliðafélags Íslands, Kristín Á. Guðmundsdóttir um vanda tengdan lyfjagjöfum inn á hjúkrunarstofnunum. Þar talaði formaðurinn um almenna starfsmenn á þessum stofnunum af miklum hroka, lítilsvirðingu og hleypidómum.Efling – stéttarfélag harmar að talað sé um störf almennra heilbrigðisstarfsmanna með þeim hætti sem formaður Sjúkraliðafélagsins gerir. Rætt er um almennt starfsfólk með mikilli lítilsvirðingu og látið er að því liggja að fólk með styttri skólagöngu en hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar kunni ekki til starfa. Því fer víðs fjarri. Það hjálpar ekki umræðu um öryggismál er varða lyfjagjafir á heilbrigðisstofnunum að forystumaður Sjúkraliðafélagsins fari þannig með meiðandi ummæli um starfsfólk sem hún ætti fremur að líta á sem samverkamenn í baráttunni fyrir meira öryggi á vinnustöðum heilbrigðisstarfsmanna. Kristín Á. Guðmundsdóttir skuldar almennu starfsfólki sjúkra- og heilbrigðisstofnana afsökunarbeiðni vegna þessara ummæla.  F. h. Eflingar – stéttarfélags Sigurður Bessason formaður