„Vort daglegt brauð“ – Dagsbrúnarfyrirlestur 26. janúar

25. 01, 2016

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur flytur fyrirlesturinn „Vort daglegt brauð“ : Alþýðubrauðgerðin í Reykjavík  á 60 ára afmæli Bókasafns Dagsbrúnar, 26. janúar 2016.Að fyrirlestrinum standa auk Bókasafns Dagsbrúnar, Efling-stéttarfélag og ReykjavíkurAkademían.Fyrirlesturinn verður haldinn þriðjudaginn 26. janúar kl. 12.05 í Bókasafni Dagsbrúnar, Þórunnartúni 2, á fjórðu hæð. Allir velkomnir. Léttar veitingar.fyrirlestur_bokasafn_dagsbrunarGuðjón mun segja frá þessu merka fyrirtæki sem stofnað var af verkamönnum og sjómönnum í Reykjavík árið 1917 til að lækka verð á brauði og rekið af alþýðuhreyfingunni allt til ársins 1977. Um langan tíma var Alþýðubrauðgerðin stærsta og öflugasta brauðgerðarhús höfuðstaðarins og einn helsti fjárhagslegi bakhjarl Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins og stofnana þeim tengdum, svo sem Alþýðublaðsins. Alþýðubrauðgerðir voru líka reknar í Hafnarfirði, á Akranesi og í Keflavík.Guðjón Friðriksson er meðal þekktustu sagnfræðinga landsins. Hann hefur starfað sem rithöfundur og sagnfræðingur síðan 1980 og gefið út fjölda bóka, m.a. um sögu Reykjavíkur, ævisögur Jónasar frá Hriflu, Einars Benediktssonar, Jóns Sigurðssonar forseta og Hannesar Hafstein, um forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar og sögu Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands .Bókasafn Dagsbrúnar var stofnað á 50 ára afmæli Verkamannafélagsins Dagsbrúnar þann 26. janúar 1956 þegar Guðrún Pálsdóttir, ekkja Héðins Valdimarssonar, gaf félaginu bókasafn manns síns til minningar um hann. Safnið var fyrst til húsa í félagsheimili múrara og rafvirkja að Freyjugötu 27 en var svo á ýmsum stöðum í Reykjavík þar til það flutti í húsakynni ReykjavíkurAkademíunnar árið 2003. Meginstofn safnsins eru bókagjafir úr einkasöfnum einstaklinga.