Hvaða áhrif hefur flóttamannastraumurinn? – eftir Kristján Bragason

20. 01, 2016

Síðustu mánuðina hafa milljónir einstaklinga frá Sýrlandi, Afganistan, Írak og öðrum stríðshrjáðum löndum streymt til Evrópu í von um öruggara og betra líf. Norðurlöndin hafa tekið á móti hátt í 250.000 flóttamönnum það sem af er þessu ári, þar af hafa ríflega 160.000 sótt um pólitískt hæli í Svíþjóð. Aldrei hafa svo margir flóttamenn komið til Norðurlandanna á jafn skömmum tíma og í raun er fátt sem bendir til þess að draga muni úr áhuga flóttamanna á að sækja um pólitískt hæli á Norðurlöndunum á næstu árum. Á síðustu vikum hafa ríkisstjórnir Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur gripið til þess ráðs að takmarka strauminn með því að taka upp landamæraeftirlit og þrengt réttindi hælisleitenda. Markmiðið með þessum aðgerðum er að ná betri tökum á ástandinu.Verkefnið felur í sér tækifæri og vandamálFlóttamannakreppan er eitt stærsta verkefni sem Norðurlöndin hafa staðið frammi fyrir í áratugi og hefur skapað mikla pólitíska umræðu um hvernig eigi að taka á þessu verkefni. Ljóst er að verkefnið er sérstakt og þarfnast óhefðbundinna lausna, enda hefur mikill fjöldi hælisleitenda á sl. mánuðum skapað ótal vandamál en á sama tíma fjölmörg tækifæri.Ýmsir hafa bent á að koma þessara flóttamanna muni auka útgjöld hins opinbera umtalsvert á næstu árum og leggja miklar byrðar á velferðarkerfið og launafólk. Á hinn bóginn hafa aðrir s.s. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, bent á að ef það tekst að skapa störf handa þessu fólki geti Norðurlöndin tryggt framtíð Norræna velferðarkerfisins og aukið hagvöxt á næstu árum.Aðgengi að störfum mikilvægasta verkefniðÞað ríkir mikil eining um að stærsta verkefnið snúist um að tryggja hraða og skilvirka aðlögun hælisleitenda, þannig að þeir verði hluti af samfélaginu. Slík aðlögun krefst þess að menn hafi aðgang að húsnæði, tungumálakennslu og atvinnu. Lykillinn að velheppnaðri aðlögun innflytjenda er atvinna, en þeim mun fyrr sem flóttamenn komast í launaða vinnu, þeim mun fyrr geta þeir séð sjálfum sér farborða og tekið þátt í kostnaðinum við velferðarkerfið.Stóra spurningin er því hvernig tryggjum við störf fyrir alla þessa flóttamenn?Verkalýðshreyfingin á Norðurlöndum hefur bent á nauðsyn þess að ráðast í stórar fjárfestingar í menntun, innviðum og leiguhúsnæði. Slíkar fjárfestingar muni skila sér í fjölgun starfa og minnka atvinnuleysi. Þá sé nauðsynlegt að styrkja raunfærnimat svo hægt sé að meta reynslu, þekkingu og hæfni flóttamanna og auka möguleika þeirra á að komast í störf. Nýlega kynntu aðilar vinnumarkaðarins innan ferðaþjónustugreina í samvinnu við opinbera aðila nýtt verkefni, sem kallast hraðleið í starf. Markmiðið með verkefninu er að hraða aðlögun flóttafólks inn í samfélagið en um leið mæta þörfum ferðaþjónustugreinarinnar fyrir vel menntuðu starfsfólki. Í dag er mikill skortur á matreiðslufólki og vilja menn auka möguleika þeirra einstaklinga sem hafa menntun eða reynslu á því sviði að sækja um þessi störf.Atvinnuleysi mikið á meðal innflytjendaÍ dag er atvinnuleysi á meðal innflytjenda mikið og að jafnaði tekur það 6–8 ár fyrir innflytjendur að fá launaða vinnu. Það er ljóst að ef ekki tekst betur til í framtíðinni mun þessi mikli straumur flóttamanna hafa neikvæðar efnahagslegar afleiðingar í för með sér. Fyrst um sinn mun aukinn flóttamannastraumur ekki hafa mikil áhrif á atvinnuleysistölur á Norðurlöndunum þar sem hælisleitendur teljast ekki atvinnulausir, en miklar líkur eru á að atvinnuleysi muni aukast nokkuð þegar þessi hópur kemur inn á vinnumarkaðinn eftir eitt til tvö ár.atvinnuleysi_myndÞað er augljóst að fram til dagsins í dag hefur aðlögun hælisleitenda inn á vinnumarkaðinn ekki tekist sem skyldi og atvinnuleysi á meðal innflytjenda er allt of hátt.Það hefur verið bent á margvíslegar ástæður fyrir miklu atvinnuleysi innflytjenda á Norðurlöndunum þó ekki séu allir sammála um hverjar ástæðurnar eru. Þannig hafa ýmsir fræðimenn bent á hátt atvinnuleysi innflytjenda skýrist m.a. af lágu menntunarstigi innflytjenda, kynþáttamismunun, skorti á tengslaneti, miklu starfsöryggi þeirra sem eru með vinnu og uppbyggingu launakerfisins, sérstaklega há byrjunarlaun.Flóttamannaumræðan hefur áhrif á kjarasamningaÍ núverandi kjarasamningaviðræðum í Svíþjóð hefur umræðan um aðlögun hælisleitenda inn á vinnumarkaðinn verið fyrirferðamikil. Samtök atvinnulífsins leggja mikla áherslu á að lækka byrjunarlaun og auka launamun, þar sem þessir þættir dragi úr atvinnuþátttöku, auki atvinnuleysi og geti leitt til þess að störf flytji úr landi. Svipaðar tillögur hafa einnig verið settar fram af stofnunum á borð við OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem telja að byrjunarlaun á Norðurlöndunum séu almennt of há.Verkalýðshreyfingin vill hækka lægstu laun meiraÞessar hugmyndir hafa ekki fallið í góðan jarðveg hjá verkalýðshreyfingunni, sem vill hækka lægstu launin meira en önnur laun. Verkalýðshreyfingin hefur bent á að rannsóknir sýni að lækkun lægstu launa leiði ekki endilega til fleiri starfa og reynslan sýni að afleiðingarnar séu yfirleitt mjög slæmar fyrir samfélagið og framleiðni minnki. Þannig sé atvinnuleysi ekki endilega lægra í þeim ríkjum sem hafa lág lágmarkslaun. Verkalýðshreyfingin á Norðurlöndum vill ekki skapa samfélag þar sem einstaklingar þurfi að vinna þrjú störf til að ná endum saman því launin séu svo lág. Lækkun lægstu launa leiðir einungis til meiri ójafnaðar, fátæktar og að lokum til átaka á vinnumarkaði.Bæta þarf tungumálakunnáttunaNorræna verkalýðshreyfingin er þeirrar skoðunar að stærsta hindrunin sem atvinnulausir innflytjendur standi frammi fyrir sé ófullnægjandi menntun og takmörkuð tungumálakunnátta. Það sé því eðlilegra að efla menntun í landinu til að minnka atvinnuleysið heldur en að lækka launin.Á næstu misserum mun Norræna samningslíkanið standa frammi fyrir nýjum áskorunum vegna vaxandi flóttamannastraums til Norðurlandanna. Þessar áskoranir krefjast þess að aðilar vinnumarkaðarins á Norðurlöndum fari ásamt stjórnvöldum sameiginlega í það verkefni að leita nýrra heildstæðra lausna á þessari krefjandi áskorun.Kristján Bragason er fyrrverandi framkvæmdastjóri SGS á Íslandi og núverandi framkvæmdastjóri Norrænna samtaka starfsfólks í hótel-, veitinga- og ferðaþjónustugreinum.