Hvetur til órofa samstöðu starfsmanna

24. 02, 2016

FundurinnStjórn Eflingar samþykkti eftirfarandi ályktun þann 4. febrúar sl. um kjaradeiluna í Straumsvík.Stjórn Eflingar-stéttarfélags hefur fylgst með þeirri alvarlegu kjaradeilu sem stéttarfélögin í álverinu í Straumsvík hafa átt við fyrirtækið Ríó Tinto Alcan.Río Tintó Alcan hefur komið fram á síðustu misserum af ótrúlegu virðingarleysi við launafólk í álverinu, vinnumarkaðinn hér á landi og íslensk stjórnvöld.Meðan fulltrúar stéttarfélaganna og samninganefnd starfsmanna hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að leysa deiluna með tillögum og tilslökunum af sinni hálfu, hefur álverið gert kröfur um breytingar á kjarasamningnum sem gengur þvert á samkomulagið sem upphaflega var gert í álverinu um störf launamanna og störf í verktöku. Ljóst er að sparnaður af þessum kröfum álversins er hverfandi í rekstri versins en málið er stórmál fyrir verkalýðshreyfinguna þar sem hverfa á frá formi launamanna og taka upp verktöku á viðkvæmum sviðum í starfsemi álversins.Stjórn Eflingar-stéttarfélags hvetur starfsmenn álversins til að standa saman sem einn maður í þessari kjaradeilu. Fyrirtækið hefur beitt ósvífnum aðferðum til að reka fleyg milli starfsmanna, stéttarfélaganna og viðsemjenda þeirra. Stjórn Eflingar hvetur einnig stéttarfélögin og samninganefnd til að standa saman sem órofa heild í þessari deilu. Ljóst er að þessi deila er komin á það stig að hvorki Samtök atvinnulífsins, bæjarstjórn Hafnarfjarðar eða íslensk stjórnvöld geta horft fram hjá því hvernig Ríó Tintó Alcan vegur að íslenskum vinnumarkaði með harkarlegri afstöðu í vinnudeilu en við höfum séð um langt árabil.Það er óþolandi að erlendur auðhringur starfi hér eins og ríki í ríkinu og neiti launafólki sínu um breytingar á launakjörum sem eru að ganga yfir allt þjóðfélagið mánuð eftir mánuð og misseri eftir misseri. Nú þegar verkalýðshreyfingin undirbýr að taka upp nýtt samningslíkan að norrænni fyrirmynd, hlýtur það að vera meginkrafan að öll helstu og öflugustu fyrirtækin á landinu verði með í þessari jákvæðu umbreytingu atvinnulífsins í átt til stöðugleika í efnahagslífinu.Stjórn Eflingar-stéttarfélags skorar því á Ríó Tintó Alcan að ganga þegar í stað til samninga við launafólk í álverinu. Að öðrum kosti verður verkalýðshreyfingin og atvinnurekendasamtökin ásamt stjórnvöldum að koma að deilunni þar sem þessir aðilar lögðu línurnar þegar verksmiðjurekstur hófst í Straumsvík.