Leikskólinn Rauðhóll í fræðsluferð til New York

27. 07, 2016

raudholl_4Starfsmenn leikskólans Rauðhóls fóru í vor í fræðsluferð til New York til að kynna sér starfsemi leikskóla úti og læra af þeim.Það er til mikillar fyrirmyndar hvernig leikskólinn hagaði fjáröflun sinni fyrir ferðina þar sem markmiðið var að allir kæmust með sem vildu og til þess tóku allir starfsmenn þátt óháð hversu mikinn styrk þeir fengu frá sínu stéttarfélagi. Af því tilefni báðum við Önnu Maju Albertsdóttur og Smára Steindórsson að gefa lesendum Eflingar innsýn í undirbúninginn og ferðina. Gefum þeim Önnu og Smára orðið:Við vildum sjá sem mest og læra sem mest og því var förinni heitið til Bandaríkjanna þar sem Bandaríkjamenn eru framarlega í kennsluaðferðum með einingakubba/Unit Block en leikskólinn Rauðhóll notar þessa kubba í starfi sínu. Við höfum farið reglulega í fræðsluferðir sem þessar frá því að leikskólinn opnaði árið 2007 og 2008 hittum við Harriet Cuffaro sem er upphafsmaðurinn að þessum kubbum en því miður náðum við ekki að hitta hana núna þar sem hún lést áður en við fórum. Það var líka kveikjan að því að skoða svona leikskóla sem tengjast því starfi sem við erum með.Samheldni í fjáröflun – allir áttu að komast út á núlli Undirbúningurinn að þessari ferð var mikill og stóð yfir í þrjú ár enda þurfti að huga að mörgu þar sem Rauðhóll er stærsti leikskólinn á Íslandi og fóru alls 63 starfsmenn í þessa ferð. Það sem stendur upp úr er hvað undirbúningurinn var skemmtilegur, það var mikil samstaða og jákvæðni í þessum stóra hóp og reyndum við að nýta hvert tækifæri til að efla hann.Starfsmenn leikskólans sóttu öll styrk úr sínu stéttarfélagi en mismunandi er hversu hár styrkurinn er eftir hverju félagi. Það var mikið lagt upp úr því að allir færu út á núlli og því skipti fjáröflunin miklu máli. Allir áttu að komast með sem vildu. Það er stefna leikskólans og leggur Guðrún Sólveig Vignisdóttir, leikskólastjóri, mikið upp úr því. Ef það kom inn nýtt starfsfólk á þessum þremur árum var bara safnað meira.Leikskólakennarar sem fengu fullan styrk tóku því þátt í fjáröfluninni af fullum krafti og allir stóðu saman sem ein heild og höfðu sama markmið til að allir gætu farið út sem höfðu áhuga og getu. Það varð til þess að einungis sjö af starfsmönnum leikskólans völdu að vera heima. Þeir fóru í heimsóknir til leikskóla í borginni og út að borða saman. Það var ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í fjáröfluninni með samstarfsfólki og mikið hópefli allan tímann. Við vorum m.a. með bingó og skemmtikvöld þar sem allir lögðu sitt af mörkum.New York þema í leikskólanumÞað var ekki bara samheldni starfsmanna sem gerði þessa ferð mögulega heldum fengum við góðan stuðning frá foreldrum og óhætt er að segja að fyrir ferðina litaðist leikskólastarfið af New York þema sem við unnum með börnunum. Við sungum lög á ensku, kubbarnir voru mikið notaðir til að byggja kennileiti borgarinnar t.d. Brooklyn Bridge, Frelsisstyttuna og Empire State. Við gerðum fána beggja landanna og margt fleira. Við gerðum líka bækling til kynna ferðina fyrir foreldrum og börnum.Beint úr vinnu út á völlFarið var út 4.–9. maí. Leikskólinn var opinn til kl. 13:00 á miðvikudegi og fórum við beint úr vinnunni með rútu sem keyrði okkur út á flugvöll. Fimmtudagurinn var uppstigningardagur en við unnum þann dag úti og föstudagurinn var starfsdagur sem og fyrir hádegi á mánudag. Við komum því beint úr flugi á mánudeginum til vinnu þreytt en ánægð eftir vel heppnaða ferð. Þetta voru því tveir heilir starfsdagar sem fóru í ferðina. Úti var okkur skipt niður í hópa þar sem við vorum 63 talsins gátum við ekki farið öll á sama staðinn. Þannig gat fólk líka valið dálítið hvað það vildi sjá og læra.Kubbasamfélagraudholl_3Rúmlega 20 manna hópur fékk að heimsækja Rifton sem er um 320 manna samfélag þar sem einingakubbarnir eru smíðaðir og var Anna Maja í þeim hópi. Það var frábært að finna náungakærleikann sem var þar, allir hjálpast að og fólk ver miklum tíma saman. Fólk fær ekki laun fyrir vinnu sína en tekjurnar sem koma frá sölu varningsins sem þau gera t.d. einingakubbunum eru notaðar til að halda samfélaginu uppi. Rekin eru barnaheimili og skóli sem allir taka þátt í að sinna daglegum verkefnum. Allir hafa þó bíl tilafnota og má segja að þetta er svipað og Amish samfélagið.Það var dásamlegt að upplifa þetta. Tekið var vel á móti hópnum, þeim boðið að borða í matsalnum sem allir borða saman í. Þegar búið var að borða hjálpuðust allir við að ganga frá, vaska upp og þvíumlíkt. Fólkið er ekki í hefðbundnum klæðnaði eins og við þekkjum heldur konurnar með skuplur á höfði og bera ekki farða, ekki er drukkið áfengi og börnin hafa aldrei séð síma eða aðrar tækninýjungar.Öðruvísi en á ÍslandiÞað var vel tekið á móti okkur á öllum leikskólum sem við heimsóttum og allir mjög vinalegir. Það sem vakti hins vegar athygli okkar er hversu vel leikskólarnir úti nýta plássið enda oft gamalt húsnæði sem leikskólarnir eru reknir í. Eins var útisvæði fyrir börnin öðruvísi en við eigum að venjast á Íslandi og á einum stað var það t.d. uppi á þaki. Þó vareinn leikskóli sem einn hópur heimsótti sveitaskólinn Manhattan Country School, þar sem tengslin við sveitina eru mikil og börnin fóru í sveitaferðir þar sem notið varútiverunnar og ræktað grænmeti. Það vekur mann til umhugsunar hvað við erum heppin hér á landi með náttúruna.Eins var aðstaða fyrir starfsmenn frábrugðin því sem við myndum sætta okkur við, en sums staðar þurftu starfsmenn að láta sér nægja að sitja á stólum í barnastærð og vinna langan vinnudag. Það var líka áhugavert að sjá hversu miklu kennarar eru opnari og sýna á sér tilfinningalegri hlið við börnin en við erum vön. Eftir að hverja heimsókn hittist hver hópur fyrir sig og talaði um heimsóknina og skráði niður punkta um hvað mætti helst læra af og hvað hefði verið áhugaverðast.Árshátíð útiEftir stranga dagskrá fimmtudag og föstudag hafði hópurinn frí laugardagraudholl_2 og hálfan sunnudag áður en heim var haldið og þá var ýmislegt brallað. Við héldum árshátíð leikskólans úti sem heppnaðist mjög vel og svo var verslað, skoðað sig um, borðað úti og ýmislegt fleira skemmtilegt.Að lokum viljum við þakka samstarfsfólki okkar fyrir frábæra ferð og ekki síður undirbúning sem gerði ferðina að veruleika sem og foreldrum og börnum sem sýndu ferðinni skilning og mikinn áhuga.Fyrir áhugasama má kynna sér leikskólana sem Anna og Smári skoðuðu og Rifton samfélagið á: http://www.cityandcountry.org/Page/Admissions , http://purple-circle.org/ og http://www.bruderhof.com/en/where-we-are/ united-states/woodcrest