Hvað má læra af Norðmönnum og Dönum?

Sterk staða trúnaðarmanna – Sáttasemjarar hafa mikil áhrif á samningagerðina

Innan stéttarfélaganna og meðal atvinnurekenda hefur um tíma verið talsverð umræða um norræna samningslíkanið en fyrir liggja áform um að vinnumarkaðurinn hér á landi færist nær þessu líkani eftir því sem aðstæður leyfa. Félögin við Flóann, Efling, Hlíf og VSFK ákváðu með Stétt-Vest að efna til fræðsluferðar til Danmerkur og Noregs í sumarbyrjun til að afla upplýsinga með beinum hætti um norræna líkanið og voru helstu stéttarfélög í Ósló og Kaupmannahöfn sótt heim til að fá upplýsingar. Það sem stendur upp úr í þessari ferð er formfestan sem ríkir í samningaverkinu, mjög aukið hlutverk sáttasemjara, öflugri staða trúnaðarmanna og ekki síst að félögin á almenna markaðnum búa við sömu tölfræðiupplýsingar. Þar er einnig samstaða um að almenni markaðurinn ryður brautina í þróun kjaramála og opinberi markaðurinn fylgir í kjölfarið.ferd3

Hér hefur verið bent á að á Norðurlöndunum ríkir meiri stöðugleiki kjaramálum en við þekkjum hér á landi sem og að launamenn búi almennt við betri félagslegar að

stæður en við gerum. Þá hefur einnig verið litið til fjölskylduvænni vinnumarkaðar þar sem styttri vinnutími hefur gefið betri kaupmátt og betra umhverfi fyrir launamanninn og fjölskyldu hans.

Í báðum löndum er við líði svokallaður rammasamningur þar sem ákveðið er fyrirkomulag samninga, tímasetningar, hvenær mál eru í höndum félaganna og hvenær þau verða að hafa samið áður en sáttasemjarar taka við en áhrif þeirra eru mun meiri en hér á Íslandi.

Þessar samskiptareglur þar á meðal ákvæði um friðarskyldu, verkfallsrétt og verkbönn og málsmeðferð í vinnudeilum fara eftir Normen eins og það heitir í Danmörku en undir þessu fyrirkomulagi er unnið að gerð kjarasamninga um sameiginleg mál sem varðar öll aðildarsamtökin en samningar um kaup og kjör eru hjá hverju félagi um sig áður en þau lenda í höndum sáttasemjara.

Allir samningar renna út á svipuðum tíma
Styrkleiki bæði norska og danska kerfisins felst að hluta til í að allir samningar renna út á svipuðu tímabili og samhengið milli almenna samningsins í viðmiðunum og tímasetningum er skýrt hvað varðar upphaf viðræðna. Í Noregi þarf almenni markaðurinn að ljúka samningum fyrir 1. maí því þá hefst ferill opinberu samninganna. Þannig rennur sá tími út 31. mars sem aðilar á almenna markaðarins hafa til að semja og launadeila tekur við. Allt miðast þetta við að aðilar verða að ná samkomulagi sjálfir áður en kemur til kasta sáttasemjaranna.

Mikil áhrif sáttasemjara
Ríkissáttasemjaraembættið hefur mikil áhrif á samningagerðina og gegnir lykilstöðu til skyldumiðlunar við tilteknar aðstæður. Þegar málin eru komin í hendur sáttasemjaranna, þrýsta þeir aðilum til að ná samkomulagi en samningsaðilar þurfa þó að vera sammála því uppleggi sem fer í atkvæðagreiðslu.

ferd1Þannig er allt kerfið bundið tímasetningum og niðurstöðum þar sem einn hlekkur leiðir til annars. Fyrst hefjast almennu samningarnir þar sem iðnaðurinn leiðir samningaviðræður og síðan koma opinberu hóparnir.

Kjarasamningarnir eru gerðir til tveggja ára. Á seinna árinu á sér stað leiðrétting launa gagnvart opinberu hópunum miðað við það launaskrið sem varð á árinu á undan. Þess vegna er mun erfiðara að sjá hver raunkostnaðurinn er í opinbera umhverfinu.

Í kjararannsóknarnefnd eða TBU sitja fulltrúar heildarsamtakanna en þar er unnið að kostnaðarviðmiði út frá stöðunni í þjóðfélaginu og vinnumarkaðnum.

Í báðum löndum kom það sterkt fram að þó að kerfið væri gagnrýnt af mismunandi hópum á hverjum tíma vegna mismunandi hagsmuna þá töldu flestir forystumenn meiri kosti í að halda þessu fyrirkomulagi en tala sig að lausnum til framtíðar.

Sérstaka athygli vakti sterk staða trúnaðarmanna
Sérstaka athygli í ferðinni vakti sterk staða trúnaðarmanna og megum við eflaust hér á landi taka þar ýmislegt til fyrirmyndar eins og í Danmörku þar sem trúnaðarmenn í vissum stéttarfélögum fara með stóran hluta af samningagerðinni sjálfir og hafa mikið sjálfstæði til þess í vinnustaðasamningum.

Meiri upplýsingar síðar Félagsmenn eru hvattir til að fylgjast vel með upplýsingum sem síðar koma úr þessari ferð og einnig greinum Kristjáns Bragasonar um norræn samningamál hér í blaðinu og á heimasíðum félaganna þar sem hann greinir frá því sem er efst á baugi í kjaramálum á Norðurlöndum.