Mikilvægasti tíminn er núna

22. 12, 2016

– segir Jose Antonio De Bustos Martin, deildarstjóri á leikskólanum Múlaborg 

Ég ætlaði mér ekki að vinna hér lengur en eitt ár. Ég þurfti að skipta um vinnu þar sem ég var á leiðinni í nám en þá vann ég við ljósmyndun, segir Jose Antonio sem vinnur á leikskólanum Múlaborg. Hann segir börnin sín hafi verið í leikskólanum og þess vegna hafi hann þekkt starfsfólkið og því hafi þetta verið góður staður til að byrja á. Það kom mér á óvart hvað var skemmtilegt að vinna hér, ég átti ekki von á því, segir Jose sem hefur nú unnið á Múlaborg í tólf ár.

Hann segir lítið mál að vera karlmaður og vinna á leikskóla. Á Múlaborg hafa alltaf unnið margir karlmenn og eitt árið vorum við fjórtán og birtumst meira að segja á forsíðu DV. Mér hefur alltaf fundist ég velkominn af starfsfólki og foreldrum. Ég hef yfirleitt mætt jákvæðu viðhorfi, segir hann.

Krefjandi starf en mætir glaður til vinnu
Dagurinn minn byrjar á að skipuleggja daginn og plana hvað við ætlum að gera en við vinnum eftir ákveðnu plani hvern dag. Skipulagning með börnunum og að tryggja öryggi þeirra, það er númer eitt, tvö og þrjú. Múlaborg er leikskóli fyrir alla, líka börn með sérþarfir. Þetta getur verið krefjandi starf en það góða er að ég kem alltaf glaður til vinnu daginn eftir. Í fyrstu var sérdeild fyrr börn með sérþarfir en þetta er breytt í dag. Börn eru fyrst og fremst bara börn og nú er öllum blandað saman og þau fá aðstoð sem það þurfa. Þetta er krefjandi starf en við erum með þroskaþjálfara á hverri deild og starfsfólk sem er með stuðning við börn með sérþarfir og svo er sérkennslustjóri á leikskólanum sem heldur utan um allt saman. Þetta gengur samt vel, eins og smurð vél.

Útskrifaðist sem leikskólaliði
Jose er margt til lista lagt því auk þess að spila á gítar og syngja, teikna listavel og taka ljósmyndir er hann einnig með svarta beltið í karate. Ég var á tímabili líka að þjálfa börn en fannst það orðið svolítið mikið að vera umkringdur börnum allan daginn. Heima, í leikskólanum og svo að þjálfa. Það má segja að ég hafi þurft félagsskap fullorðinna líka þó börnin séu yndisleg. Áður en hann fór að þjálfa karate hafði hann tekið fagnámskeið I og II en hafði svo ekki tíma til að halda áfram. Þegar ég æfði karate opnaðist tækifæri fyrir mig til að kenna þannig að ég lagði leikskólaliðann á hilluna á meðan ég fór í þjálfaranám í karate og byrjaði svo að þjálfa. Það var eftir að hann hætti að þjálfa sem hann fór í leikskólaliðann og útskrifaðist nú í vor. Strax eftir vorið opnaðist svo staða deildarstjóra í leikskólanum.

Leiðinlegt ef hann þarf að víkja
Leikskólastjórinn þekkir mig vel og spurði hvort ég vildi taka stöðuna. Ég var þá að vinna á næstelstu deildinni og leið vel en vildi nýta mér það sem ég var búinn að læra. Ég var á góðum stað og fannst ég vera að gefa af mér en svo losnaði staðan. Það þarf alltaf að auglýsa stöður sem þessar og hafa menntaðir leikskólakennarar forgang í stöðurnar. Mér var dálítið ýtt í það að ég tók stöðuna. Það þarf að auglýsa svona stöður aftur eftir þrjá mánuði og svo ár og ég verð að segja að mér finnst það dálítið leiðinlegt. Ég er að vinna í þessu af hug og hjarta og skipuleggja deildina og hafa eins og ég vil og svo kemur kannski einhver með lengri skólagöngu og ég þarf að víkja fyrir honum. Maður er nógu hæfur til að taka þetta að sér en kannski ekki hæfur eftir eitt ár.

Sagt að fylgja hjartanu
Jose eins og nafnið gefur til kynna er frá Baskalandi á Spáni en hann kynntist konu sinni þegar hún var sem skiptinemi úti. Ég væri ekki hér ef hún væri ekki hér, segir hann en saman eiga þau þrjú börn. Ég kom tvítugur hingað þannig að ég er búinn að eiga heima lengur á Íslandi en á Spáni. Hann segir foreldra sína vera ósköp róleg yfir því að hann búi á Íslandi og starfi sem deildarstjóri á leikskóla. Þau eru það fjálslynd að þeim stendur á sama um það. Þegar ég var tvítugur á leið til Íslands sögðu þau bara fínt, farðu þangað sem hjartað vísar þér.

Mikilvægt að byggja góðan grunn

Þegar hann er spurður að því hvað sé við starfið sem fái hann til að halda áfram stendur ekki á svörum. Ég var mörg ár að vinna fyrir framan tölvu og fór svo að hafa samskipti við lifandi manneskjur, ég held að það útskýri það, þessi samskipti. Líka þegar maður áttar sig á því hvað maður getur haft mikil áhrif á börnin. Mikilvægasti tíminn í lífi þeirra er örugglega núna og ég held að margir átti sig ekki á því. Það þarf að kenna þeim eins vel og hægt er og byggja góðan grunn fyrir þau svo þau geti haldið áfram í grunnskóla. Það er ótrúlegt að vinna í þjóðfélagi þar sem börnin eru alin upp við góða siði og þessi börn eiga eftir að verða læknar, fréttamenn og fleira. Við erum að byggja grunninn og það byrjar í leikskóla. Það er eiginlega það sem skiptir svo miklu máli. Ég var sjálfur ekki á leikskóla, ég var alinn upp á tímum einræðisherrans Francos og það var ekki rétta leiðin til að byggja upp þjóðfélagið og búa til þennan grunn, þess vegna held ég að Spánn sé núna eins og það er, það var ekki þessi góði grunnur.

Með bros á vör
Aðspurður hvort hann sé aldrei þreyttur eftir læti dagsins er hann með svar á reiðum höndum. Það sagði aldrei neinn að þetta væri einfalt starf og ég get verið búinn á því eftir daginn en ég mæti alltaf með bros á vör í vinnuna. Fyrsta sem ég fæ í vinnunni er alltaf knús, það er svo yndislegt. Það er bara eitthvað sem ég fékk ekki áður í fyrri vinnum. Að finna þessa hlýju og ást og gefa til baka, tölvupósturinn brosir ekki til þín.