Kjarasamningum ekki sagt upp

Þrátt fyrir að ein af forsendum kjarasamninga aðildarsamtaka ASÍ og SA sé brostin, er það niðurstaða samninganefndar ASÍ og SA að fresta viðbrögðum vegna forsendubrests þar til í febrúar 2018. Kjarasamningum aðila verður því ekki sagt upp að þessu sinni.Er það mat samninganefndar ASÍ að ákveðin verðmæti séu í núgildandi samningi, 4,5% almenn launahækkun 1. maí og hækkun á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóð um 1,5% 1. júlí en það er einn áfanginn í því að samræma lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Auk þess sem það er talið réttara að ríkið glími við þá launastefnu sem það er að móta með niðurstöðu kjararáðs, en nokkur stór félög og samtök opinberra starfsmanna eru með lausa samninga síðar á þessu ári. Þetta byggist ekki síst á þeirri staðreynd að í undangegnum þremur kjarasamningsniðurstöðum á almenna vinnumarkaði þá hafa ríkið og sveitarfélög komið í kjölfarið og samið um meiri launahækkanir við sína viðsemjendur.Niðurstaða forsendunefndar ASÍ og SA vegna endurskoðunar kjarasamninga er að tvær af þremur forsendum standast en ein gerir það ekki. Ríkið mun koma að fjármögnun á uppbyggingu á 2.300 almennum íbúðum og kaupmáttur hefur aukist á samningstímanum. Sú forsenda sem stóðst ekki, snýr að launaþróun annarra hópa en ljóst er að aðrir hópar á hinum opinbera markaði hafa fengið meiri hækkun en þeir á almenna vinnumarkaðnum.  Þar ber hæst mjög háar launahækkanir æðstu embættismanna, alþingismanna og ráðherra.Samkomulag samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ og framkvæmdastjórnar SA vegna uppsagnarákvæða kjarasamninga 28. febrúar 2017Niðurstaða forsendunefndar ASÍ og SA vegna endurskoðunar kjarasamninga í febrúar 2017Yfirlýsing samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ og framkvæmdastjórnar SA 28. febrúar 2017