Auka þarf virðingu fyrir eldra fólki

19. 04, 2017

– segir Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir

Ljósm. Silla Páls
Ljósm. Silla Páls
Já, hvar er hún núna, hún Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir? Hana þarf reyndar ekki að kynna fyrir félagsmönnum Eflingar-stéttarfélags. Hún á að baki langan feril innan verkalýðshreyfingarinnar, þar sem hún var formaður Starfsmannafélagsins Sóknar um árabil þar til félagið sameinaðist í nýju félagi fyrir síðustu aldamót og myndaði Eflingu-stéttarfélag. Hún varð síðar varaformaður Eflingar eftir sameininguna og þegar hún lét af störfum hjá Eflingu, bjuggust flestir við að félagsstörfum hennar væri lokið því hún hafði síðustu tvo áratugina gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum, bæði í tengslum við stéttarfélögin og lífeyrissjóðina. En svo var nú ekki. Þórunn tók við sem formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni fyrir fjórum árum og hefur verið áberandi talsmaður þeirra sem lokið hafa að mestu starfsævinni. Eins og ætíð fyrr lítur hún á þessi umskipti sem tækifæri til að takast á við það sem næst rekur á fjörurnar en Þórunn og maður hennar Þórhallur eru mikið ræktunarfólk og gerðust stórtæk á því sviði eins og öðrum sem Þórunn hefur komið að. Hún tók því vel að ræða um síðasta starfsvið sem formaður eldri borgara við Fréttablaðið en hún lét af því starfi nýlega. Hún byrjar á því að segja okkur frá því hvað nýleg könnun leiddi í ljós varðandi framlag eldra fólks til samfélagsins.Framlag eldri borgara til samfélagsins Nýlega var gerð könnun um framlag eldri borgara til samfélagsins og þar kom í ljós að eldri borgarar veita dýrmæta aðstoð. Ingibjörg H. Harðardóttir, lektor, er höfundur rannsóknarinnar ásamt Amalíu Björnsdóttur en rannsóknin var einnig gerð árið 2006. Það sem vakti athygli okkar núna er að það er meiri stuðningur við afkomendur, segir Þórunn. Margir eldri borgarar hýsa ættingja, veita fjárhagsaðstoð og veita mikilvægt framlag við að aðstoða með barnabörnin. Það er mikill fjöldi sem hjálpar börnunum sínum með því að sækja eða skutla og passa. Þetta eru sláandi tölur. Ef þetta framlag væri ekki þá væri vinnumarkaðurinn öðruvísi, það er bara svoleiðis, segir Þórunn.Sjálfboðavinna Eldri borgarar taka líka þátt í ýmsum sjálfboðaliðastörfum sem er ómetanlegt. Það eru sjálfboðaliðar sem lesa fyrir börn í skólum, en Haraldur Finnsson vinnur ákveðið prógramm í skólum og það starf getur verið algjör bjargvættur fyrir börn af erlendum uppruna eða börn með lestrarerfiðleika sem þurfa meiri stuðning. Þetta er dýrmæt lausn og skólarnir hafa fagnað þessu framtaki.Vilja betri lífsgæði og aukna virðingu Það eru mörg baráttumálin eins og að fjölga hjúkrunarheimilum, auka heimaþjónustu, ýmis réttindi eldri borgara, verðlag og fl. þannig að lífsgæði þessa hóps verði sem best. Það sem við erum hins vegar einbeitt í er að auka virðingu fyrir eldra fólki, segir Þórunn. Við finnum að það málefni brennur á eldra fólki. Því finnst það vera sett til hliðar, það er ekki endilega þannig en það upplifir sig þannig. Það að stíga út af vinnumarkaði hefur í för með sér tilfinningarót og þá þarf að hugsa: hvað get ég gert? Það er nauðsynlegt að undirbúa sig fyrir starfslok, bæði tilfinningalega og fjárhagslega, segir Þórunn.Það eru alls konar hlutir sem þarf að skoða eins og hvar stend ég með minn lífeyrissparnað, á ég að minnka við mig húsnæðið og margt fleira. Það er líka margt hægt að gera skemmtilegt annað en að vinna. Hún segir að með tilkomu starfslokanámskeiða hjá stéttarfélögunum hafi orðin ákveðin viðhorfsbreyting, að líta frekar á starfslok sem nýjan kafla í lífinu heldur en eitthvað sem væri búið.Þarf að vinna upp niðurskurð eftir hrunið Helsta baráttumál eldri borgara hefur verið á síðustu árum að ná þeirri kjaraskerðingu til baka sem varð eftir hrun. Hrunið fór mjög illa með marga og eldri borgarar voru skertir um átján milljarða, það munar um minna.Strögglið við stjórnvöld um auknar fjárveitingar gagnvart eldra fólki er endalaust, segir Þórunn og nefnir dæmi að í Reykjavík hefur ekki verið byggt nýtt hjúkrunarheimili í fjölda ára. Það bæði þarf að sækja um að gera það, það er ágreiningur um gjald fyrir umönnun og svo að heimilin geta ekki veitt þá þjónustu sem þarf. Við lifum lengur og verðum veikari, þannig að skortur á þessum hjúkrunarheimilum er mjög alvarlegt mál. Það er bráðaþörf fyrir á annað hundrað manns.Þórunn segir að fyrir átta eða tíu árum hafi verið ráðist í að breyta heimilum þannig að þau yrðu einbýli og það tók sex eða sjö ár og á meðan var ekkert byggt. Það var góðra gjalda vert að breyta þessum vistarverum í einbýli en á móti kom að við fækkuðum rýmum á höfuðborgarsvæðinu sem mátti ekki gerast.Almannatryggingar Aðspurð um ný lög almannatrygginga þar sem frítekjumarkið er lækkað, segir Þórunn að það verði að finna einhverja lausn á því. Við höfum bæði rætt við TR og nýjan félags- og jafnréttismálaráðherra, Þorstein Víglundsson. Þetta er hugsanlega tímabundið ástand því það stendur líklegast til að breyta þessu en þessi hópur mun ekki njóta góðs af því sem eru núna um 4000 manns. Hún segir mikla ólgu í þessum hóp og að það geti komið niður á yfirsetu í næstu prófatörn í háskólum og eins hóti margir leiðsögumenn að hætta. Það eru margir eldri borgarar sem hafa sinnt yfirsetu í prófum og eins margir sem eru komnir yfir 67 ára sem eru leiðsögumenn eða bílstjórar. Ef ekkert verður að gert verður eitthvert vesen. Það jákvæða er þó að við erum þó sammála um að það séu agnúar á þessu og leitum leiða til að finna lausn.Tannlækningar og heyrnartæki Árið 2013 setti velferðarráðherra, reglugerð á sem tryggja átti lífeyrisþegum og öryrkjum rétt á endurgreiðslu vegna tannlæknakostnaðar en með reglugerðinni fylgdu engir peningar og segir Þórunn að það hafi vantað 800 milljónir. Sjúkratryggingar eru því enn að endurgreiða skv. gjaldskrá frá árinu 2004 sem er í engu samræmi við gjaldskrána í dag en engir samningar eru við tannlækna. Þetta geta verið dýrar aðgerðir og í sumum tilfellum er þetta spurning um lífsgæði. Við viljum vera, jafnt og aðrir með þær nútímatannlækningar sem eru í boði. Eins er talið að 4000 manns þyrftu heyrnatæki sem eru ekki með þau og í mörgum tilfellum er það vegna peningaleysis. Hún segir eitt af því sem þurfi að hvetja fólk til að skoða áður en það hættir í stéttarfélaginu hvort það eigi rétt á styrk. Það getur skipt sköpum að nýta hann á meðan réttindin eru til staðar því með kaupum á dýrari heyrnartækjum er fólk komið í annan gæðaflokk.Hreyfing mikilvæg Mér er einnig hugleikin hreyfingin, segir Þórunn. Það hefur komið fram hjá dr. Janusi Guðlaugssyni, að með reglubundinni hreyfingu í hálftíma á dag megi seinka öldrun og auka lífsgæði. Nefnd á okkar vegum hefur skilað tillögum til borgarinnar og það verður einnig gert átak hjá líkamsræktarstöðvum, þar sem fleiri stöðvar munu bjóða upp á tíma fyrir eldri borgara. Við erum þakklát fyrir það en það má alltaf gera betur. Það þarf að breyta viðhorfinu, það hættulegasta sem þú gerir er að setjast niður og gera ekki neitt.Margt í boði hjá FEB – auka lífsgæði Hjá félaginu eru ýmis námskeið í boði. Um hundrað manns mæta hér á föstudögum til að læra um Íslendingasögur og allt að 200 manns hafa sótt kennslu í að læra á iPad. Tímarnir breytast hratt og það þarf að halda í við þróunina, og nefnir Þórunn sem dæmi að félagið hafi verið með 2600 netföng félagsmanna en nú séu þau komin upp í 5000. Félagið gefur út afsláttarbók og segir Þórunn að félagsgjaldið fáist venjulega endurgreitt með henni.Merkilegt námskeið um akstur sem dregur úr hættu á slysum Við höfum líka tekið þátt í ótrúlega merkilegu námskeiði þar sem farið er yfir akstur. Það var unnið í Noregi fyrst og dró úr hættu eldri borgara á slysum og smá árekstrum. Við tengjumst líka áhugaverðu verkefni hjá Landsbjörg þar sem fulltrúum frá þeim er boðið í heimsókn og þeir athuga hvort heimilið sé öruggt, athuga lausar mottur og svona og eru einnig með krossapróf sem aðstandendur geta farið yfir. Það verða um 2000 slys í heimahúsi á ári hverju og því skiptir máli að reyna að koma í veg fyrir slys. Verstu slysin eru þegar fólk klifrar upp á stól til að sækja eitthvað og því segi ég að það eigi bara að tæma efstu skápana. Það er hægt að koma í veg fyrir margt og í framtíðinni munum við sjá ýmsar tækninýjungar sem munu gagnast öldruðum en nú þegar er byrjað að vinna með marga hluti eins og golfdúka sem nema það ef einhver dettur á gólfið og senda þá neyðarboð til viðeigandi aðila.Við sjáum fram á margt skemmtilegt og svo megum við ekki gleyma því að megin þorri eldri borgara er glaður og hress og ferðast mikið. Starfið hér er óþrjótandi og fer eftir því hugmyndaflugi sem við í FEB og félagar höfum saman. Í félaginu er öflug stjórn sem ýtir málefnum áfram.Við viljum berja jákvæðni í fólk og leggjum mikið upp úr virðingu gagnvart eldri borgurum og að þeir séu með í lífinu eins lengi og hægt er og séu virkir þátttakendur í samfélaginu, segir Þórunn í lokin á þessu líflega og skemmtilega viðtali.