Tími hinna glötuðu tækifæra á að vera liðinn
Því er haldið fram að Ísland hafi nú risið úr efnahagslægðinni og það drjúpi smjör af hverju strái í landinu. Húsnæðisverð hafi stöðugt hækkað undanfarin misseri og sé að ná fyrri hæðum fyrir hrun. Fjöldi 
- Er eðlilegt að atvinnurekendur geti með einföldum ákvörðunum stjórna sjávarútvegsfyrirtækja svipt fólk í heilu byggðarlögum atvinnu og lífsviðurværi?
- Er líðandi að sömu sægreifum í sjávarútvegi hafi liðist að neita sjómönnum um sanngjarnan kjarasamning í sex ár og að það skyldi taka 10 vikna verkfall til að koma vitinu fyrir atvinnurekendur.
- Er ásættanlegt að stjórnvöld hafi með fullri vitund og ásetningi búið til aðstæður sem einkafyrirtæki í heilbrigðiskerfinu geti nýtt sem gróðalind eigendanna? Eigum við að líða það að sjúkdómar fólks og veikindi séu grundvöllur arðgreiðslna til lækna og eigenda einkafyrirtækja?
- Er það eðlilegt að ríkisstofnanir og jafnvel ráðuneytin séu mönnuð af ræstingarfyrirtækjum í eigu einkaaðila sem hagnast á sölu á vinnu margra þeirra sem bera minnst úr býtum fyrir vinnu sína? Er það siðlegt að þeir sem sitja í æðstu stöðum ríkisins með sín fínu laun í boði kjararáðs standi síðan fyrir því að starfsmenn í sömu stofnunum séu arðrændir?
- Er eitthvað eðlilegt við það að fyrirtæki hér á landi, annað hvort innlend eða erlend, geti flutt inn erlenda starfsmenn og greitt þeim laun jafnvel langt undir lágmarkslaunum? Síðan veita þessi fyrirtæki starfsmönnum sínum engar upplýsingar, hvorki um vinnumarkaðinn, tungumálið eða menningu Íslands og senda þá síðan úr landi þegar upp kemst um glæpinn.
- Er það í lagi þegar mansalsmál koma upp hér í samfélaginu, að fólkið sem lendir undir stjórn misindismanna í atvinnurekendastétt eigi það eitt úrræði að lokum að flýja til útlanda á vald fyrrum kvalara sinna? Er þetta í lagi?
- Er það í lagi að hálfri öld frá því að sett voru lög í landinu um jöfn laun karla og kvenna skuli enn ríkja hér ójöfnuður í launum sem einungis verður skýrður með launamun kynjanna? Er í lagi að viðhorf atvinnurekenda og stjórnenda hafa staðið í vegi fyrir árangri á þessu sviði? Nú segja stjórnmálamenn að „jafnlaunavottun“sé lykillinn að lausninni. Við munum fylgjast grannt með því.
- Eigum við áfram að sætta okkur við það að lögin í landinu og skattlagning eigna og tekna séu ætíð með þeim hætti að eignir Íslendinga safnist á færri og færri hendur? Meðan frítekjumark eldri borgara er lækkað um rúmar 100 þúsund kr. á mánuði lifir fjöldi Íslendinga í Florida góðu lífi á arðgreiðslum og fjármagnstekjum ævilangt.
Íslendingar hafa lengi alið með sér þann draum að komast í stöðu hinna Norðurlandaþjóðanna í félags- og efnahagsmálum. Þar er byggt á stöðugleika í efnahagsmálum og félagslegu réttlæti. Þeim fjölgar sem betur fer Íslendingum sem búið hafa á Norðurlöndum og sjá að þar nýtur fólk réttinda í menntun, heilbrigðis- og félagsmálum og mikils öryggis sem er langt umfram það sem við þekkjum hér á landi.Það er engin eftirspurn lengur eftir sveiflukenndum lífskjörum, þar sem atvinnurekendur og stjórnvöld ræna okkur lífsviðurværinu, atvinnunni og félagslegri stöðu einu sinni á áratug. Þess vegna var það svívirða að stjórnmálamenn og embættismenn skyldu komast upp með það, með verkfærinu kjararáði og lagasetningu á Alþingi, að stöðva þessa miklu umbótaaðgerð sem fólst í nýju íslensku samningalíkani að norrænni fyrirmynd. Verkalýðshreyfingin hefur oft sýnt, nú síðast með áformuðu átaki í húsnæðismálum, að afl hennar getur riðið baggamuninn þegar á reynir.Er ekki kominn tími til að kreppa hnefana og láta finna fyrir sér?Er tími hinna glötuðu tækifæra ekki orðinn nógu langur?Er ekki tími til að launafólk skerpi átakalínur svo um munar?Baráttudagur launafólks 1. maí er sannarlega dagurinn til að vinna ný heit um umbætur í þágu launafólks.