Að njóta í stað þess að þjóta

18. 07, 2017

Að njóta í stað þess að þjótaAllar árstíðirnar eru góðar til að njóta lífsins og allar hafa þær uppá eitthvað skemmtilegt að bjóða. Nú er sumar og þá er eins og ávallt um að gera að njóta alls þessgóða sem lífið býður uppá, hvernig sem viðrar. Hér eru nokkrar sumarlegar hugmyndir. Vonandi finnurðu einhverja sem hentar þér.

Vertu ferðamaður í þínu nærumhverfi

Prófaðu að leika ferðamann í þínu nánasta umhverfi í einn dag. Skipuleggðu fyrirfram og skoðaðu það sem er í boði og hentar þínum smekk, högum eða fjölskyldumynstri. Skoðaðu bæklinga með athygli gestsins. Kynntu þér hvort söfn bjóða uppá eitthvað sem heillar þig eða þitt fólk, rifjaðu upp hvaða lystigarða er vert að ganga um og skoða eða hvernig má gera sér sögudag með því að fara á milli og kynna sér styttur, minnisvarða eða önnur merki. Það er ekki verra að taka til gott nesti og setjast á bekk eða grasbala, slaka á og njóta. Ef það hentar betur má auðvitað prófa kaffihús eða veitingastað sem áhugavert er að skoða.

Farðu í gönguferð með hugarfari barnsins

Oft æðum við áfram með hugann við einhver markmið sem við ætlum að ná. Við þurfum að drífa okkur í vinnuna, í búðina, að sækja barn á leikskólann, að ljúka líkamsræktinni eða gönguferðinni og hitt og þetta. Þá erum við ekki í núinu. Prófaðu að fara í gönguferð nálægt heimili þínu og einsettu þér að vera algerlega í núinu. Það geturðu til dæmis gert með því að ákveða að horfa í kring um þig eins og þú sért þriggja ára. Þriggja ára barn er mjög áhugasamt um umhverfi sitt og tekur eftir því sem er í kring um það, skrítnum steini, fallegu blómi, formi á gangstéttarhellu eða fugli í tré. Hver veit nema þú uppgötvir eitthvað sem hefur alltaf verið þarna en þú hefur aldrei veitt athygli þótt það sé búið að vera beint fyrir framan nefið á þér á hverjum degi þegar þú þýtur fram hjá því í hugsanaleysi. Settu athyglina í núið í næsta göngutúr og sjáðu hvort þú uppgötvar eitthvað áhugavert!

Gefðu þér og þínum skjálausan dag

Slökktu á snjallsímanum, tölvunni, Facebook, Twitter, Strava, sjónvarpinu, útvarpinu í bílnum eða hverju því sem mögulega gæti stolið tíma þínum og athygli hverju sinni. Skoraðu á fjölskyldumeðlimi eða vini sem þú vilt eiga gæðastundir með, að gera það sama. Sumir fara í dýrt og vel skipulagt frí á sólarströnd en eyða mestum tíma frísins síðan í símanum að taka og setja inn myndir af sér eða fjölskyldumeðlimum og telja lækin. Auðvitað er gaman að taka myndir til að rifja upp og ylja sér við góðar minningar síðar, en prófaðu skjálausan dag og gáðu hvað gerist. Ekki bara þegar þú ert í fríi heldur alltaf þegar tækifæri gefast. Líklega missirðu ekki af miklu en hlotnast heilmargt til að njóta. Sumarið er tíminn

Skipuleggðu smá en slakaðu líka á

Það er óþarfi að skipuleggja allt í þaula og bara streituvaldandi að ætla sér of mikið. Sumarið er tíminn til að njóta í stað þess að þjóta. Gott er að blanda saman fríi sem einkennist af markmiðaleysi og slökun og að skipuleggja atburði og daga til að hlakka til. Finndu tímanlega það sem tengist sumrinu. Það geta verið sumarföt, sundföt, sólgleraugu, reiðhjól, grill, garðhúsgögn, sumarleg vatnskanna og glös eða myndir og minningar. Byrjaðu á að láta þig dreyma og ákveddu svo hvað er raunhæft og ánægjulegt að skipuleggja ef þú ert ekki þegar búinn að því. Mundu að það er bara streituvaldur af ofskipuleggja og ætla sér of mikið. Sumar getur verið gott þótt ekkert sé ferðast og ekki farið til útlanda eða á hverja einustu bæjarhátíð. Miðaðu við þínar aðstæður, aldur, heilsu, fjárhag, fjölskylduhagi og annað sem hefur áhrif. Njóttu þess að hafa daga sem eru alveg án skipulags og bara gerast og gerðu þér far um að taka eftir öllu því góða sem á daga þína drífur hvernig sem viðrar.