Hver eru áhrif COSTCO? – eftir Henný Hinz, hagfræðing ASÍ

29. 08, 2017

Mikil umræða hefur verið um áhrifin af innkomu Costco verslunarkeðjunnar á íslenskan markað á liðnum mánuðum og ekki laust við að nokkurs titrings gæti meðal keppinauta. Á litlum neytendamarkaði eins og þeim íslenska þar sem fákeppni ríkir á flestum sviðum ætti heilbrigð samkeppni frá öflugum aðilum að vera fagnaðarefni.

Breytt samningsstaða
Innlend fyrirtæki á smásölumarkaði hafa undanfarið gert talsverðar skipulagsbreytingar í rekstri sínum sem ætla má að eigi að gera þeim betur kleift að standast samkeppnina við hinn nýja keppinaut og söluaðilar hafa lýst því hvernig breytt umhverfi hafi bætt samningsstöðu þeirra gagnvart erlendum heildsölum. Neytendur hafa því ríka ástæðu til að gera sér vonir um að samkeppni frá þessum stóra erlenda aðila muni veita íslenskri verslun þarft aðhald, lækka hér vöruverð og auka fjölbreytni.

Varanleg lækkun eða tímabundin skjálftahrina?
Áhrifin af opnun Costco eru ekki síst áhugaverð fyrir þær sakir að vöruúrval verslunarinnar er fjölbreytt og því kann áhrifa hennar að gæta á ýmsar neysluvörur, allt frá dekkjum, eldsneyti og raftækjum til lyfja og matvara og allt þar á milli. Fyrstu vísbendingar, m.a. úr vístölumælingum Hagstofunnar, benda til þess að verslanir hafi margar lækkað verð á undanförum mánuðum en lækkana gætir í ýmsum vöruflokkum s.s. matvöru, hreinlætisvörum, raftækjum, húsbúnaði, hjólbörðum og lyfjum. Þess skal þó gætt að allt of snemmt er að fullyrða um hvort hér sé um sé að ræða varanleg áhrif á verðlag eða tímabundna skjálftahrinu á markaði.

Aðrir verslunarhættir í dag
Hver áhrifin verða til lengri tíma þegar nýr aðili hefur kynnt sig fyrir neytendum og komið sér fyrir á markaði kann að vera önnur saga. Að sama skapi verður fróðlegt að sjá hvort opnun einnar verslunar á höfuðborgarsvæðinu muni hafa víðtæk áhrif á verðlag um land allt eða hvort áhrifin verði að einhverju leiti staðbundin. Í því samhengi má heldur ekki horfa fram hjá því að óháð innkomu Costco á íslenskan markað ætti íslensk verslun nú almennt að standa frammi fyrir meiri samkeppni en áður vegna breyttra verslunarhátta gegnum netið og aukins aðgengis neytenda að upplýsingum um verðlag erlendis.

Íslenskir neytendur eiga inni
Það er einfalt mál að nálgast upplýsingar um verð á flestum vörum á vefnum sem eitt og sér ætti að veita innlendri verslun aukið aðhald. Í ágætri skýrslu Samkeppniseftirlitsins um samkeppni á dagvörumarkaði frá árinu 2015 kemur fram að arðsemi dagvöruverslunar hér á landi er umtalsvert betri en almennt í Evrópu og Bandaríkjunum. Neytendur hér á landi eigi því sitthvað inni. Þörfin fyrir virkt aðhald frá neytendum sjálfum og samtökum þeirra, auk öflugra opinberra stofnanna sem sinna eftirliti með hagsmunum neytenda er því lykilatriði til þess að hagræðing og aukin samkeppni skili sér í lægra vöruverði til almennings. Kærkomin innkoma Costco breytir engu þar um.