2.228 einstaklingar voru í starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK um allt land í lok ágúst, 19% fleiri en á sama tíma í fyrra þegar 1.870 einstaklingar nýttu sér þjónustuna. Aldrei áður hafa svo margir verið í þjónustu á vegum VIRK, mest höfðu áður verið 2.176 einstaklingar í þjónustu VIRK í nóvembermánuði 2014.

Til VIRK leitar nú stærri hópur með fjölþættari og flóknari vanda en áður en yfir 70% þeirra hafa ekki starfsgetu vegna andlegra sjúkdóma og/eða stoðkerfis-vandamála. Samtals hafa 1.177 einstaklingar komið nýir inn í starfsendur-hæfingarþjónustu á þessu ári og er það aukning um 11,6% frá fyrra ári og 735 hafa útskrifast úr þjónustunni, 3,2% færri en í lok ágúst í fyrra. Þá er meðal-lengd á tíma einstaklinga í þjónustu nú 15 mánuðir en var 13 mánuðir fyrir ári.