Félagsdómur féll Eflingu í vil

15. 09, 2017

Nýlega féll dómur í máli sem Efling höfðaði gegn Reykjavíkurborg fyrir Félagsdómi vegna ágreinings um þá túlkun borgarinnar að greiða mætti starfsmönnum sem ráðnir eru í tímavinnu vaktaálag utan dagvinnutímabils. Varðandi upphaf málsins, segir Ragnar Ólason, þjónustufulltrúi.Þetta var svona ósköp venjulegt símtal frá félagsmanni sem starfar hjá Reykjavíkurborg, sagði hann. Hann spurði hvort hann væri í réttum launaflokki. Þegar leið á símtalið upplýsti félagsmaðurinn mig um að hann væri í tímavinnu og fengi líka borgað vaktaálag. Ég sagði honum strax að þetta gæti ekki staðist því ef hann væri ráðinn í tímavinnu væri skýrt í kjarasamningi að hann ætti að fá dagvinnu á dagvinnutímabili og yfirvinnu utan þess og um helgar. Þegar félagsmaðurinn kom síðan með launaseðla sína til mín kom í ljós að hann fékk greitt vaktaálag utan dagvinnutímabils og um helgar. Þetta varð síðan að deilumáli milli Eflingar og Reykjavíkurborgar þar sem borgin féllst ekki á túlkun Eflingar sem hafði verið óumdeild árum saman.Ragnar er sérfræðingur í opinberum kjarasamningum með sérþekkingu á samningum borgarinnar. Hann segir að málið sýni vel hve mikilvægt sé að félagsmenn leiti til Eflingar eftir aðstoð varðandi launa- og réttindamál ef minnsti vafi er á að verið sé að greiða rétt laun samkvæmt samningum.Málið snýst um það sáraeinfalda meginatriði að ef starfsmaður er ráðinn í tímavinnu á opinbera vinnumarkaðinum, það er hjá ríki, sveitarfélagi eða hjúkrunarheimili, þá á hann að fá greidda dagvinnu á dagvinnutímabili eða frá kl. 8 til 17 virka daga en utan þess á hann að fá yfirvinnu eða stórhátíðarkaup ef hann vinnur á stórhátíðardegi, segir Ragnar.Ragnar hvetur þá sem vinna á opinbera vinnumarkaðnum og ráðnir eru á tímakaup að leita þegar í stað til Eflingar til að láta yfirfara launaseðla sína. Undir þetta tekur Anna Lilja Sigurðardóttir, lögmaður Eflingar, sem rak málið fyrir hönd Eflingar fyrir Félagsdómi en ASÍ stefndi borginni fyrir hönd Eflingar til að fá staðfesta túlkun félagsins á ákvæði 1.4.2. í kjarasamningum þar sem fjallað er um greiðslu tímakaups. Hún segir afar gott að hafa trausta þjónustufulltrúa innan stéttarfélagsins sem þekkja samningana frá grunni og geta þess vegna brugðist rétt við strax.Hvenær er heimilt að greiða tímavinnukaup? Anna Lilja minnir á að samkvæmt kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og Reykjavíkurborgar er í ákveðnum tilvikum heimilt að ráða starfsmenn í tímavinnu sbr. ákvæði 1.4.2. í kjarasamningnum en þar segir orðrétt að heimilt sé að greiða tímavinnukaup í eftirfarandi tilvikum:

  1. Nemendum við sumarstörf og í námshléum.
  2. Lífeyrisþegum sem vinna hluta úr starfi.
  3. Starfsmönnum sem ráðnir eru til skamms tíma vegna sérstakra árvissra álagstíma ýmissa borgarstofnana eða afleysingastarfa, þó eigi lengur en 2 mánuði.
  4. Starfsmönnum, sem ráðnir eru til að vinna að afmörkuðum verkefnum s.s. átaksverkefnum. Reykjavíkurborg
  5. Starfsmönnum, sem starfa óreglubundið um lengri eða skemmri tíma
  6. Starfsmönnum sem ráðnir eru í minna en 33,33% starf, 13 klst. eða minna að jafnaði á viku.

Hefur Efling-stéttarfélag litið svo á að ráðning í tímavinnu sé undantekning frá þeirri meginreglu að starfsmenn skuli ráðnir á mánaðarlaun. Í skýringarkassa sem fylgir ákvæðinu segir svo „þegar unnið er utan dagvinnumarka, á almennum frídögum og sérstökum frídögum skal greitt yfirvinnukaup en á stórhátíðum er greitt stórhátíðarkaup“. Í samræmi við þetta orðalag hefur Efling ávallt litið svo á að greiða beri yfirvinnukaup falli vinna utan dagvinnumarka. Frá árinu 2013 hafa starfsmenn borgarinnar sem ráðnir eru í tímavinnu leitað til stéttarfélagsins þar sem þeir hafa fengið greitt vaktaálag á dagvinnutímakaup. Gerði stéttarfélagið strax athugasemdir við þessa framkvæmd sem leiddi þó ekki til neinnar niðurstöðu og þurfti því að höfða mál fyrir Félagsdómi. Féll dómur stéttarfélaginu í vil þar sem viðurkennt var að borgin hefði brotið gegn ákvæði 1.4.2. með því að greiða félagsmönnum stéttarfélagsins sem ráðið var í tímavinnu vaktaálag í stað dagvinnu og yfirvinnu.Hópur sem bjó við lakari kjör og lakari kjarasamningsbundin réttindi Sú túlkun Reykjavíkurborgar að heimilt væri að greiða starfsmönnum í tímavinnu vaktaálög fól í sér að þessi hópur starfsmanna bjó bæði við lakari launakjör og lakari kjarasamningsbundin réttindi enda eiga starfsmenn sem ráðnir eru í tímavinnu ekki eins langan uppsagnarfrest og veikindarétt og þeir starfsmenn sem ráðnir eru á mánaðarkaup. Í ljósi þessa dóms hvetur Efling-stéttarfélag þá starfsmenn sem ráðnir eru í tímavinnu og starfa samkvæmt kjarasamningi stéttarfélagsins við Reykjavíkurborg að skoða launaseðla sína vel og leita til félagsins sem fyrst telji það á sér brotið varðandi launagreiðslur. Jafnframt er ítrekað mikilvægi þess að félagsmenn leiti til þjónustufulltrúa á skrifstofu stéttarfélagsins varðandi réttindi sín vakni einhverjar spurningar, segir Anna Lilja.