Ræstingarfólk og Háskóli Íslands

15. 12, 2017

Nokkur umræða hefur spunnist um ræstingarfólk og starfsfólk sem starfar í mötuneytum hjá Háskóla Íslands. Fram hefur komið að starfsfólkið er ráðið þannig tímabundið að það er ekki í ráðningarsambandi yfir sumarmánuðina og hefur því ekkert starfsöryggi að þessu leyti. Það er sérstaklega jákvætt við þessa umræðu að dregin eru fram slök starfskjör þessara hópa á landinu. Dregin eru fram ráðningarkjör sem fáum starfshópum í landinu er boðið upp á.

Það hefur verið eitt meginmarkmið Eflingar í kjarasamningum að lagfæra laun þeirra sem lakar standa í stéttarfélaginu þar á meðal að leiðrétta kjör ræstingarfólks og fólks sem starfar sem matráðar. Því miður hafa viðbrögðin oft verið með þeim hætti að þegar tekist hefur að lyfta kjörum þessara hópa, þá hefur ráðningarkjörum eða jafnvel hópum í þessum störfum verið sagt upp störfum og samið við ræstingarfyrirtæki og önnur fyrirtæki til að ná niður kjörum og launum. Opinberir aðilar hafa ekki verið barnanna bestir í þessu og má minna á umræðuna um stjórnarráðin sem gerðu einmitt þetta fyrir nokkrum misserum, sögðu upp fastráðnu fólki og réðu fyrirtæki inn í stjórnarráðin í staðinn.  Háskóli Íslands hefur einnig í kjölfar kjarasamninga sagt upp ræstingarfólki og enginn þarf að velkjast í vafa um tilganginn með því.

Þess vegna er það gott að umræðan um stöðu ræstingarfólks og hópa sem standa höllum fæti skuli fara út til almennings. En mikilvægt er að það sé farið með rétt mál. Það er ekki rétt að verið sé að brjóta lög eða kjarasamningsbundin réttindi í HÍ á þessu fólki svo sem um orlof. Staða margra í hópi ræstingarfólks og fólks í mötuneytum er hins vegar slök þegar kemur að kjörum og atvinnuöryggi. Fyrirtækin geta með skipulagsbreytingum haft áhrif á starfskjör til hins verra þegar laun þeirra sem lakast standa í kjarasamningum hafa verið hækkuð sérstaklega.

Fram hefur komið í úttekt ASÍ að allar ráðstafanir stjórnvalda síðustu tvo áratugina í barnabótum, vaxtabótum, húsnæðisbótum og hvað varðar persónuafslátt, hafa bitnað sérstaklega illa á þessum hópi og nánast þurrkað út áhrifa launahækkana þeirra sem lakast standa.