Ný forysta í stjórn Eflingar

26. 01, 2018

Í Eflingu-stéttarfélagi er stjórn skipuð 15 manns. Kjörtímabil stjórnarinnar er tvö ár og tekur ný stjórn við á aðalfundi ár hvert sem í ár er áformaður þann 26. apríl nk. Formaður og varaformaður eru kosnir til tveggja ára í senn á sitt hvoru árinu.  Sjö stjórnarmenn eru kjörnir sem aðalmenn til tveggja ára en átta stjórnarmenn á þessu ári þegar formaður er kosinn.  Í ár bjóða sig fram formaður og gjaldkeri auk sex meðstjórnenda sem eru kosnir í stjórnina. Þá eru kosnir á sama tíma tveir skoðunarmenn og einn til vara sem fylgja kjöri formanns annað hvert ár. Fram hefur komið að Sigurður Bessason sem hefur verið formaður í Eflingu um tvo áratugi, gefur ekki kost á sér áfram.  Ingvar Vigur Halldórsson bauð sig fram sem formann en auk þess er boðið fram til gjaldkera og sex stjórnarmanna. Listi uppstillingarnefndar var einróma samþykktur í stjórn og trúnaðarráði Eflingar.

Ingvar Vigur hefur lengi starfað hjá Efnamóttökunni og er trúnaðarmaður á vinnustaðnum. Hann hefur jafnframt setið í stjórn Eflingar um árabil. Auk Ingvars Vigurs Halldórssonar eru á listanum Ragnar Ólason sem lengi var trúnaðarmaður félagsins hjá Reykjavíkurborg og síðan aðaltrúnaðarmaður um árabil. Hann gaf kost á sér til gjaldkera félagsins en hann hefur gengt því embætti nokkur kjörtímabil. Síðan eru á listanum meðstjórnendurnir Halldór Valur Geirsson hjá Orkuveitu Reykjavíkur, Hrönn Bjarnþórsdóttir, skólaliði í Réttarholtsskóla, Ingibjörg Sigríður Árnadóttir hjá SÞ í Þorlákshöfn, Kristján Benediktsson, Samskipum, en öll eru þau trúnaðarmenn á sínum vinnustöðum,  Sigurlaug Brynjólfsdóttir, sem starfar hjá leikskólanum Jörva og Kolbrún Eva Sigurðardóttir hjá Ölgerðinni.

Þá er listi skoðunarmanna reikninga óbreyttur frá síðasta ári en skoðunarmenn hafa verið Helgi Helgason hjá Reykjavíkurborg og Ruth Arelíusdóttir, sem starfaði lengi á leikskólum borgarinnar og varamaður þeirra er Þórður Ólafsson, fyrrum formaður Boðans í Þorlákshöfn og fyrrum stjórnarmaður í Eflingu.